Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir frumvarp um rafrettur stuðla að lögmætum viðskiptum með þessa vöru og tryggja eftirlit og mikilvæga neytendavernd. Aðgengi fólks að rafrettum og reglur um notkun þeirra samkvæmt frumvarpinu geri þeim hægt um vik sem vilja hætta tóbaksnotkun með aðstoð þeirra.
Ráðherra mælti fyrir frumvarpinu á Alþingi í gær. Eins og fram kom í ræðu hennar er frumvarpið fyrst og fremst liður í því að samræma löggjöf og reglur Evrópuríkja í þessum efnum eins og kveðið er á um í Evróputilskipun þar að lútandi. Annars vegar er lagt til að settar verði heildstæðar reglur um heimildir til innflutnings, sölu og markaðssetningar á rafrettum og áfyllingum fyrir rafrettur, auk ákvæða um eftirlit með slíku. Hins vegar eru lögð til ákvæði um heimildir til notkunar rafrettna.
Verði frumvarpið að lögum verður í fyrsta sinn veitt almenn heimild fyrir innflutningi, dreifingu og sölu á rafrettum og áfyllingum fyrir þær hér á landi, hvort sem þær innihalda nikótín eða ekki. Svandís segir mikilvægt að fólk átti sig á þessu, því samkvæmt gildandi lyfjalögum sé óheimilt að selja rafrettur með fyllingum sem innihalda nikótín nema fyrir liggi markaðsleyfi frá Lyfjastofnun.
„Stundum hefur mátt skilja umræðuna um rafrettur hér á landi á þá lund að setning löggjafar þar að lútandi sé fyrst og fremst til þess fallin að leggja stein í götu þeirra sem vilja hætta hefðbundnum tóbaksreykingum og nýta sér rafrettur til þess. Þetta er fjarri lagi. Sú löggjöf sem hér er lögð til, með frumvarpi því sem hér er til umræðu, skapar umhverfi sem mun í fyrsta sinn stuðla að löglegum innflutningi þessarar vöru. Því fylgir bætt neytendavernd þar sem fólk getur fremur en áður treyst merkingum og innihaldslýsingum. Síðast en ekki síst verða settar nauðsynlegar skorður við sölu og markaðssetningu á þessum varningi þegar börn eiga í hlut“
sagði Svandís m.a. í ræðu sinni þegar hún mælti fyrir frumvarpinu á Alþingi í gær.
Frumvarpinu hefur nú verið vísað til umfjöllunar hjá velferðarnefnd Alþingis.