Haraldur Benediktsson, fyrsti þingmaður Norð-vestur kjördæmis fyrir Sjálfstæðisflokkinn, segist ætla að hugsa sig um hvort hann bjóði sig fram til varaformennsku í flokknum á landsfundi sjálfstæðisflokksins um miðjan mars, eftir fjölda áskorana. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
„Já, ég get staðfest það að margir hafa komið að máli við mig og skorað á mig að bjóða mig fram í varaformennskuna í flokknum og eina svarið sem ég hef gefið er að ég hef lofað því að hugsa málið og ég ætla að taka mér þann tíma sem ég þarf í það,“
segir Haraldur sem tekur fram að hann sé ekki nálægt ákvörðun ennþá. Haraldur er Akurnesingur og hefur verið á þingi síðan 2013 en var bóndi frá árinu 1995.
Samkvæmt Morgunblaðinu eru aðrir líklegir varaformannsframbjóðendur þau Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður, ritari og starfandi varaformaður flokksins.