Ólafur Arnarson, sem sagði af sér formennsku í Neytendasamtökunum í fyrra vegna ásakana um óhófleg útgjöld, gerir sér mat úr ummælum Brynhildar Pétursdóttur, framkvæmdarstjóra Neytendasamtakanna á RÚV í dag. Þar segir Brynhildur að samtökin styðji aukið frelsi á leigubílamarkaði svo framarlega sem öryggiskröfur séu í lagi.
Ólafur fullyrðir á Facebooksíðu sinni að Brynhildur hafi ekki neitt umboð fyrir orðum sínum um að samtökin styðji aukið frelsi á leigubílamarkaði, ekki liggi fyrir samþykkt þings Neytendasamtakanna um þetta tiltekna mál. Því sé Brynhildi ekki heimilt að lýsa yfir stuðningi Neytendasamtakanna:
„Athyglisverð yfirlýsing hjá framkvæmdastjóra Neytendasamtakanna. Burt séð frá efnisinnihaldi hennar er þess hvergi merki að finna að síðasta þing Neytendasamtakanna hafi ályktað um þessi mál. Þegar ekki liggur fyrir samþykkt þingsins getur hvorki framkvæmdastjórinn né aðrir fullyrt eitt eða neitt um vilja samtakanna um tiltekin mál. Hafi stjórn samtakanna ályktað um þetta efni ber að taka fram að það sé stjórnin, en ekki samtökin sem slík, sem lýst hafi vilja sínum. Á meðan ég þekkti til var þess gætt að yfirlýsingar talsmanna samtakanna milli þinga væru ávallt í einu og öllu byggðar á þeirri stefnu sem síðasta þing markaði. Margt hefur svo sem breyst með tilkomu sitjandi stjórnar.“
Þá segir Ólafur að mörg brýnni mál ættu að hafa forgang hjá samtökunum:
„Athyglisvert engu að síður að talsmaður samtakanna sjái sérstaka ástæðu til að lýsa skoðun samtakanna um mál, sem þing samtakanna sá ekki ástæðu til að álykta um, en láta ekki í sér heyrast varðandi mörg mun brýnni hagsmunamál neytenda, alla vega ef marka má áherslur síðasta þings Neytendasamtakanna.“
Brynhildur gaf lítið fyrir ummæli Ólafs, í svari við fyrirspurn Eyjunnar um meint umboðsleysi hennar:
„Það væri mjög óeðlilegt ef Neytendasamtökin gætu ekki tjáð sig um neytendamál sem upp koma nema þau hafi áður verið rædd á þingi samtakanna sem haldið er annað hvert ár. Það er jú ekki hægt að sjá öll mál fyrir.“