Á morgun (21. febrúar) verður haldið upp á alþjóðadag móðurmálsins í Veröld – húsi Vigdísar. Einkunnarorð alþjóðadags móðurmálsins í ár snúast um að viðhalda fjölbreytni tungumála og ýta undir fjöltyngi, sem eru einnig meginmarkmið Vigdísarstofnunar – alþjóðlegrar miðstöðvar tungumála og menningar.
Haldið verður upp á daginn með áhugaverðu málþingi: „Orðabækur: Fjölbreytni tungumála, fjöltyngi og þýðingar“ þar sem rætt verður um mikilvægi orðabóka fyrir tungumálafjölbreytni og til að byggja brýr á milli menningarheima.
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og fulltrúar margra mikilvægustu stofnana á þessum sviðum, bæði á Íslandi og í Evrópu almennt, verða á staðnum og taka þátt í málþinginu. Með málþinginu er einnig haldið upp á komu einstaks safns orðabóka og tímarita til landsins, en líklega er um eitt stærsta safn orðabóka í heiminum að ræða. Safnið verður varðveitt í Veröld. Að málþinginu loknu verður haldin móttaka og gestum gefst kostur á því að skoða orðabókasafnið.