Frjálsræði í áfengisverslun hefur aukist mikið á Íslandi, þótt enn sé ekki heimilt að selja það í kjörbúðum. En áfengi er út um allt, og í raun upplifum við tíma mikillar áfengisdýrkunar, ólíkt því með tóbak sem má ekki lengur sjást í búðum. Tóbaksbúðir með ilmi af píputóbaki eru horfnar, en vín er eiginlega alls staðar þar sem við förum. Til dæmis er það svo í Mathöllinni við Hlemm að vín og bjór er miklu meira áberandi en maturinn þegar maður gengur þangað inn. Einhvern tíma hefðu menn kannski fett fingur út í það að áfengi væri selt á strætóbiðstöð – en við getum sagt að templarahreyfingin hafi algjörlega tapað baráttunni.
Þetta frjálsræði þekktist ekki þegar ég var ungur maður. Þá voru örfá útibú ÁTVR í bænum, frekar þungbúnir karlar í sloppum afhentu vöruna yfir búðarborð – viðmótið var þannig að maður fann til sektarkenndar. Það var ekki heimilt að selja bjór. Ekki mátti afgreiða vín á miðvikudögum – þá skyldu menn láta renna af sér. Veitingahúsin voru þannig að vínflöskur voru lítt sýnilegar. Þetta var semsagt eitthvað sem þótti rétt að pukrast með. Í Ríkinu voru flöskurnar settar í ljóta svarta plastpoka – engum gat dulist hvaðan maður var að koma þegar maður gekk með þá úti á götu. Þessi mynd er úr áfengisversluninni sem var á Snorrabraut – takið eftir að þarna voru tóbaksreykingar ekki enn orðnar tabú, það eru öskubakkar til reiðu fyrir reykjandi viðskiptavini (það er reyndar orð sem maður hefði seint notað í sambandi við þessar verslanir).
En svo var tími þegar frjálsræðið var ennþá minna. Einu sinni var auðvitað vínbann, en því var hnekkt þegar Spánverjar og Portúgalir sögðust ekki kaupa af okkur fisk nema við keyptum af þeim vín. Signý Guðbjartsdóttir setti þessar mjög fróðlegu myndir inn á vefinn Gamlar ljósmyndir. Þetta er „Áfengisbók fyrir karla“ frá því á árum heimsstyrjaldarinnar síðari. Hún inniheldur skömmtunarseðla, eins og sjá má.
Þarna afhendist ein hálfflaska af sterkum vínum eða ein heilflaska af heitum vínum (líklega portvín og sherrý) eða tvær flöskur af borðvínum gegn afhendingu seðilsins og undirskrift.
Ýmiss konar höft hafa þekkst á áfengissölu. Til dæmis var lengi við lýði sú regla í Færeyjum að þeir fengu ekki að kaupa vín sem höfðu ekki borgað skattana sína.