Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Vinstri grænna, birtir á Facebook síðu sinni bókhaldsgögn um endurgreiðslur frá Alþingi vegna ferðakostnaðar hans innanlands á árinu 2017. Upphæðin er tæpar 300.000 krónur vegna fimm viðburða. Andrés Ingi segir sjálfsagt að útgjöldin verði opinber líkt og til standi að hálfu Alþingis:
„Umræðan um starfskostnað þingmanna undanfarna daga er af hinu góða. Ef þingmenn eiga að sinna starfinu af þeim metnaði sem það á skilið, þá kostar það pening. Við eigum að sinna landinu öllu, hitta fólk á ólíkum stöðum, þiggja boð á ráðstefnur og halda opna fundi. En á móti er sjálfsagt að þau útgjöld séu birt opinberlega og vonandi að fundin verði samræmd leið til þess á vegum Alþingis sem fyrst.
Ég safnaði saman þeim ferðakostnaði sem ég sjálfur hef fengið endurgreiddan síðastliðið ár – fyrsta árið mitt sem þingmaður – og sé að það voru rétt um 300 þúsund krónur vegna fimm viðburða. Sundurliðun á endurgreiðslunum fylgir hér að neðan, þannig að fólk geti skoðað. Flóknara þarf þetta ekki að vera!“
Hér má sjá sundurliðun á ferðum Andrésar og kostnað: Yfirlit um endurgreiðslur
Hvort aðrir þingmenn fylgi í fótspor Andrésar verður fróðlegt að sjá.