Staksteinar Morgunblaðsins taka til varnar fyrir einn stærsta eiganda Árvakurs í dag, Eyþór Arnalds, borgarstjóraefnis Sjálfstæðisflokksins, sem vísað var á dyr í Höfða í fyrradag, af sjálfum borgarstjóranum Degi B. Eggertssyni. Borgarstjórn Reykjavíkur boðaði þingmenn Reykjavíkur til fundar í Höfða í tilefni kjördæmaviku þingmanna, en þar mætti Eyþór í boði Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, utanríkisráðherra, en þeir eru miklir mátar.
Yfirskrift Staksteina er „Óvenjuleg framganga borgarstjóra“:
„Hvers vegna ætli borgarstjóri hafi vísað oddvita stærsta stjórnarandstöðuflokksins af samráðsfundi sveitarstjórnarmanna og þingmanna Reykjavíkur? Var það gert í þágu samræðustjórnmálanna? Var það gert til að auka skilning þingmanna á þörfum Reykjavíkur? Var það gert til að styrkja stöðu Reykjavíkur? Var það gert, eins og borgarstjóri heldur fram, vegna þess að oddvitinn á ekki enn sæti í borgarstjórn?“ spyr Staksteinahöfundur í dag.
Höfundur segir skýringuna á þessari hegðun borgarstjóra vera þá, að hann telji stöðu sína veika:
„Nei, ekkert af þessu getur átt við. Dagur veit, líkt og allir aðrir, að oddvitinn leiðir borgarstjórnarflokk Sjálfstæðisflokksins og er á leið í borgarstjórn. Þátttaka hans í samtali við þingmenn ætti því að vera af hinu góða. En hver er þá raunveruleg skýring þessarar óvenjulegu framgöngu borgarstjórans? Það skyldi þó ekki vera að hann væri farinn að ókyrrast og teldi stöðu sína það veika að hún krefðist þess að hindra aðgang oddvitans að samráðsfundum? Borgarstjóri hefur fulla ástæðu til að óttast um stöðu sína þó að viðbrögð á borð við þau að reka oddvita annarra flokka af fundum séu ekki líkleg til árangurs. Við borginni blasa gríðarleg heimatilbúin vandamál og þær lausnir sem núverandi meirihluti býður upp á munu aðeins auka á vandann. Borgarstjóri getur reynt að ná tökum á vandanum með þeirri nýstárlegu aðferð að loka að sér, en væri ekki nær að hlusta og bjóða jafnvel upp á nýja stefnu?“