Stofnfundur Pírata í Mosfellsbæ verður haldinn í kvöld, en Píratar ætla að bjóða fram í sex sveitarfélögum, Reykjavík, Hafnarfirði, Kópavogi, á Suðurnesjum, Akureyri og í Mosfellsbæ. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Pírötum.
Til skoðunar er að bjóða fram í fleiri sveitarfélögum, þá með öðrum flokkum. Í öllum tilfellum verður notast við prófkjör við val á framboðslista, en þau hefjast um miðjan mars.
Halldór Auðar Svansson borgarfulltrúi, ætlar ekki að gefa kost á sér og varaborgarfulltrúinn Þórgnýr Thoroddsen segist ekki stefna á baráttusæti.
Aðrir fulltrúar Pírata í ráðum Reykjavíkurborgar stefna hinsvegar á toppsætin, en staðfestir eru Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, Alexandra Briem, Þórlaug Ágústsdóttir, Arnaldur Sigurðarson og Svafar Helgason.
Tilkynning Pírata:
Stofnfundur Pírata í Mosfellsbæ verður haldinn í kvöld, miðvikudaginn 14. febrúar. Fundurinn fer fram í safnaðarheimili Lágafellssóknar, Þverholti 3, klukkan 20.00. Stofnun þessa nýja aðildarfélags er til marks um vöxt Pírata á landsvísu og enn mögulegt að fleiri ný aðildarfélög verði stofnuð fyrir sveitastjórnakosningar.
Halldóra Mogensen þingmaður Pírata hefur boðað komu sína á fundinn. Við hvetjum alla Pírata sem búsettir eru í Mosfellsbæ til að mæta á fundinn þar sem kosið verður í stjórn nýstofnaðs félags.
Píratar ætla að bjóða fram í Reykjavík, Hafnarfirði, Kópavogi, á Suðurnesjum, Akureyri og í Mosfellsbæ. Þegar eru starfandi virk aðildarfélög í öllum þeim sveitarfélögum utan Mosfellsbæjar. Til skoðunar er í fleiri sveitarfélögum að Píratar bjóði fram með öðrum flokkum.
Alls staðar þar sem Píratar bjóða fram undir eigin merkjum verður prófkjör notað við val á lista. Prófkjörin hefjast um miðjan mars.en til að geta kosið í prófkjörum Pírata þarf fólk að hafa verið skráð í flokkinn í 30 daga. Þannig þarf að vera skráður í Pírata fyrir 17. febrúar til að geta kosið í prófkjörum á höfuðborgarsvæðinu. Hins vegar er hægt að bjóða sig fram eftir þann tíma allt þar tið framboðsfresti lýkur.
Gert er ráð fyrir að lokaniðurstöður prófkjöra í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði liggi fyrir 26 mars og niðurstöður í Reykjanesbæ 23. Mars. Tímalína varðandi prófkjör á Akureyri liggur fyrir á næstunni. Þeir sem hafa áhuga á að bjóða sig fram fyrir hönd Pírata eru hvattir til að senda póst á piratar@piratar.is<mailto:piratar@piratar.is>
Málefnastarf er í fullum gangi um land allt en lögð verður áhersla á gagnsæi, aðgengi íbúa að stjórnsýslunni, vörn gegn spillingu og íbúalýðræði. Þá verða velferðarmál, fjölskyldumál og mannréttindi í öndvegi.