Þetta er stórkostleg ljósmynd úr gömlu Reykjavík. Höfundur hennar mun vera Guðni Þórðarson, sá merki blaðamaður, ljósmyndari og ferðamálafrumkvöðull. Guðni hafði einstaklega næmt auga, til dæmis hef ég mikið dálæti á myndum sem hann tók í vesturheimi og mátti sjá nokkrar þeirra í þáttunum Vesturfarar.
Þessi mynd mun vera tekin stuttu eftir 1950. Hún var sett inn á vefinn Gamlar ljósmyndir. Þarna má sjá verkamenn af því tagi sem einkenndu þennan bæjarhluta í eina tíð. Þeir eru í bláum nankinsfötum, með sixpensara á höfði, eyrarkarlar voru þeir stundum kallaðir. Á þessum tíma var öll hafnarstarfsemin niðri í bæ, hafnarverkamennnirnir settu svip á borgina – en stundum gat verið stopult um vinnuna hjá þeim.
Það er rigning, dumbungur, og báðir mennirnir, sá með hjólið og hinn, virka heldur vinnulúnir. Maður ímyndar sér að þeir séu á leið heim eftir vinnudag. Á hjólinu hangir nestistaska.
Reiðhjól eru ekki nýtt fyrirbæri í Reykjavík. Í Kiljuinnslagi um sögu Dagsbrúnar fyrir nokkrum árum sagði Þorleifur Friðriksson sagnfræðingur frá því hvernig verkakarlarnir komu heim í hádeginu á hjólunum í verkamannabústaðina við Hringbraut. Þeir fengu að borða, en út um hvern glugga ómuðu fréttir Ríkisútvarpsins, svo lögðu þeir sig aðeins, og hjóluðu svo aftur í vinnuna.
Myndin er tekin í Mýrargötunni. Til hægri má sjá Hamarshúsið, þar var vélsmiðjan Hamar, en því var síðar breytt í íbúðir. Til vinstri er Café Skeifan, en þar hafði áður verið gamla hafnarvogin. Á þessum tíma og lengi síðar var þetta verkamannakaffihús, en nú er þarna Hamborgarabúllan. Og nánast hvert einasta hús sem sést á myndinni er orðið að veitingastað.