Sjálfstæðisflokkurinn í Vestmannaeyjum er við það að klofna. Óánægðir sjálfstæðismenn íhuga nú af alvöru að bjóða fram sérlista í komandi bæjarstjórnarkosningum í maí, en óánægjan stafar af því að ekki hafi verið efnt til prófkjörs hjá flokknum. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Rætt er við Elís Jónsson, sem telur yfirgnæfandi líkur á að aukaframboð verði sett á laggirnar, þó enn sé málið aðeins á viðræðustigi:
„Þetta fer enn mjög hljótt og það er gert meðvitað,“
segir Elís, sem segist ekki munu skorast undan að leiða klofningsframboðið, en sé einnig opinn fyrir að fá annað frambærilegt fólk til verksins.
Bæjarstjórinn Elliði Vignisson segist ekki vita um hvað málið snúist og vill því lítið tjá sig, hann hafi ekki heyrt nöfn frambjóðenda nýs lista, né hvaða málefnum sá listi ætti að standa fyrir.
Samkvæmt Morgunblaðinu er Íris Róbertsdóttir, fyrrum varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, nefnd sem mögulegur oddviti nýs framboðs. Hún segist vita af óánægju innan Sjálfstæðisflokksins vegna prófkjörsmála og viðurkennir að rætt hafi verið við sig, en vill ekki svara því til hvort það komi til greina að hennar hálfu.
Ekki hefur verið haldið prófkjör við val á lista hjá Sjálfstæðisflokknum í Eyjum í 28 ár. Tillögur flokksins um uppstillingu og prófkjör náðu ekki fram að ganga í fulltrúaráði og því var ákveðið að raða á listann. Þá kjósa aðal- og varamenn fulltrúaráðsins í fimm efstu sætin, en framboðsfrestur rennur út 20. febrúar.
Tillagan um prófkjör var naumlega felld með 28 atkvæðum gegn 26, sem er ein helsta ástæðan fyrir óánægjunni. Morgunblaðið hefur þó eftir Jóni Á. Ólafssyni, sjálfstæðismanni, að óánægjan eigi sér dýpri rætur, ekki hafi náðst sátt um síðustu uppstillingu.
Þá er haft eftir Elís að kominn sé tími á endurnýjun í forystu flokksins, Elliði hafi setið í 12 ár, sem sé ágætis tími.