Í dag eru 19 ár síðan að Vinstrihreyfingin-grænt framboð var stofnuð. í tilefni af 20 ára afmæli hreyfingarinnar á næsta ári, hefur verið ákveðið að ráðast í ritun sögu flokksins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá VG.
Þar segir að á stjórnarfundi síðastliðinn föstudag hafi verið ákveðið að hefja undirbúning á ritun sögu VG og muni ritnefnd koma saman á næstunni til að velja sagnfræðing til að starfa að sögurituninni, sem færð verði í bók og boðin áskrift að henni:
„Vinstrihreyfingin-grænt framboð er nítján ára í dag, en hún var formlega stofnuð 6. febrúar 1999 til að sameina vinstrisinna og náttúruverndarfólk fyrir þingkosningar 8. maí 1999. VG vann stórsigur í sínum fyrstu kosningum, fékk 9.1 prósent atkvæða.
Nú 19 árum síðar leiðir Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, ríkisstjórn Íslands og er VG með þrjá ráðherra, forseta Alþingis og ellefu manna þingflokk á Alþingi. Flokkurinn fékk 16.9 prósent atkvæða í Alþingiskosningum, og félagar í VG eru hátt í sexþúsund talsins. VG býður fram í mörgum sveitarstjórnum og er undirbúningur fyrir kosningar vel á veg kominn í stærstu sveitarfélögunum.
Á stjórnarfundi VG síðastliðinn föstudag var samþykkt að ráðast í ritun sögu Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs fyrir 20 ára afmælið á næsta ári. Ritnefnd kemur saman á næstunni og velur sagnfræðíng til að starfa að sögurituninni. Stefnt er að því að sagan komi út á bók og boðin verði áskrift að henni.“