Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir í Morgunblaðinu í dag að Viðreisn skoði nú samstarf við aðra flokka um sameiginlegt framboð til sveitastjórnarkosninga í maí:
„Það er ekki búið að klára eitt eða neitt, en það lítur út fyrir samstarf á nokkrum stöðum við ýmsa flokka og aðila. Það eru líkur á því að við munum bjóða fram með öðrum flokkum. Við höfum átt góð samtöl við t.d. Bjarta framtíð, auk annarra flokka. Það er ýmislegt í pípunum sem ég á von á að muni klárast á næstu dögum eða vikum. Það er engin miðstýrð ákvörðunartaka í þessu hjá okkur í Viðreisn heldur mun öll ákvörðun um samstarf vera tekin af heimafólki á hverjum stað fyrir sig,“
segir Þorgerður við Morgunblaðið.
Áður hafði verið greint frá samstarfi Viðreisnar og Bjartrar framtíðar í Kópavogi og mögulega Reykjavík, en Morgunblaðið telur nú litlar líkur á sameiginlegu framboði Viðreisnar og Bjartar framtíðar í borginni, nema það verði undir merkjum Viðreisnar. Hinsvegar hafi Viðreisn verið í viðræðum við Samfylkingu, VG og Framsókn.
Björt Ólafsdóttir,formaður Bjartrar framtíðar, segir við Morgunblaðið að flokkurinn eigi í viðræðum við Viðreisn á nokkrum stöðum, en hafi mest talast saman í Kópavogi, en vill ekki gefa upp hvort BF hafi talað við aðra flokka.