Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, skrifar í Morgunblaðið í dag um að það sé ekki góð hugmynd að banna snjallsíma í skólum. Sú hugmynd kom upp á dögunum, þegar Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, óháður borgarfulltrúi, greindi frá tillögum sínum um bann við snjallsímum í skólum borgarinnar. Björn Leví svaraði Sveinbjörgu og vændi hana um heimsku og þröngsýni.
Grein Björns í Morgunblaðiðu er öllu dannaðri. Björn segir frá rannsókn sem gerð hefur verið um notkun barna á snjallsímum:
„Það er til dæmis risastór grein vísinda sem snýst um það að rannsaka menntun frá ýmsum sjónarhornum, þar á meðal hvort og hvernig snjallsímar henti vel í skólum og námi. Í greininni „Það eina sem við þurfum að óttast eru 120 stafir“ (e. The only thing we have to fear is 120 characters) frá árinu 2012 fara Thomas og McGee yfir helstu áhyggjumálin sem varða snjallsíma í skólum; Staflensku (e. textese), svindl, neteinelti og kynferðisleg myndskilaboð (e. sexting). Niðurstaðan er mjög einföld, snjallsímar eru ekki vandamálið. Hvernig lýsa þessi vandamál sér? Staflenska er óttinn við að tungumálakunnáttu hraki af því að nemendur hafa bara samskipti með stuttum skilaboðum og merkjum í stað þess að skrifa vandaðri og lengri texta. Rannsóknir sýna hins vegar þveröfuga þróun sem ætti ekki að koma neinum á óvart. Því meira sem þú notar skrifmál, þeim mun betri verður þú í því og við verðum betri í því sem okkur finnst skemmtilegt að gera. Það að nemendur svindli í prófum er miklu eldra en snjallsímar. Rannsóknir benda meira segja til þess að svindl hafi verið algengara áður fyrr.“
Þá segir Björn að snjallsímar séu ekki forsenda eineltis, það hafi hann sjálfur sannreynt:
„Snjallsíminn er vissulega mjög öflugt tæki með aðgang að gríðarlegu magni af upplýsingum. En er það ekki einmitt kostur? Eineltismál eru mitt hjartans mál. Það voru ekki til neinir farsímar, hvað þá snjallsímar þegar ég var lagður í einelti í grunnskóla. Veraldarvefurinn er vissulega nýr leikvöllur fyrir eineltið sem við skiljum kannski ekki eins vel. Vandamálið sem ég glímdi við var hins vegar að ég gat illa sýnt fólki nákvæmlega hvað var gert eða sagt. Það var erfitt að fá foreldra hinna krakkanna til þess að trúa því hvað börnin þeirra gætu gert eða sagt. Það er ekki vandamálið með neteinelti þó að á móti komi nafnleysið. Hvernig er það samt öðruvísi en veggjakrot á klósetti eða á strætó- skýli? Það er kannski erfiðast að benda á eldri dæmi kynferðislegra myndskilaboða. Sá möguleiki varð eiginlega til með myndavélum á símum. En með það eins og svo margar aðrar tækninýjungar þá er ekki hægt að kenna tækinu um misnotkun.“
Björn Leví segir lausnina fólgna í umgengni við tæknina:
„Lausnin hlýtur að vera fræðsla um það hvernig á að umgangast tæknina. Lausnin getur ekki verið bann því þá gætum við alveg eins reynt að banna tússpennann svo það sé ekki hægt að skrifa „Jón er asni“ á strætóskýlin eða internetið þannig að það sé ekki hægt að senda eineltisskilaboðin eða stafrófið þannig að við getum ekki skrifað svindlmiða fyrir próf.“