Stefanía G. Halldórsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs Landsvirkjunar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsvirkjun.
Hlutverk sviðsins er að hámarka tekjur Landsvirkjunar til langs tíma. Í því felst þróun, kynning og sala á orkuvörum og þjónustu, samskipti við núverandi og væntanlega viðskiptavini vegna samninga og reksturs þeirra og greining viðskiptatækifæra.
Framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs heyrir undir forstjóra Landsvirkjunar.
Stefanía starfaði hjá CCP Games í átta ár, síðast sem framkvæmdastjóri CCP á Íslandi og þar áður sem yfirþróunarstjóri CCP í Shanghai í Kína og þróunarstjóri á Íslandi. Stefanía starfaði áður hjá Orkustofnun í átta ár meðal annars sem yfirverkefnisstjóri og sérfræðingur hjá vatnamælingum og hjá HugurAx, sem verkefnisstjóri í viðskiptagreind.
Stefanía er með M.Sc. umhverfisfræði og B.Sc. í landfræði frá Háskóla Íslands. Hún er stjórnarformaður Icelandic Startups og stjórnarformaður Almannaróms, félags um máltækni á Íslandi.
Stefanía er gift Snorra Árnasyni, verkfræðingi, og eiga þau þrjú börn.