Hagsmunasamtök heimilanna hafa sent frá sér áskorun til forsætisráðherra og alþingismanna. Er sett fram krafa um að gerð verði rannsóknarskýrsla um „það sem gert var eftir hrun“.
Meðal þess sem samtökin vilja láta rannsaka er stofnun nýju bankanna og yfirfærsla lánasafna gömlu bankanna, eignarhlutar þeirra til þrotabúa gömlu bankanna og úrlausnir mála vegna ólöglegra lánaskílmála og framferðis kröfuhafa.
Þá benda samtökin á skaðsemi verðtryggingar húsnæðislána, hvernig málsmeðferð við nauðungasölur brjóti á mannréttindum og að dómstólar hafi ítrekað fellt dóma útfrá hagsmunum fjármálafyrirtækja.
Áskorunina má lesa hér að neðan:
ÁSKORUN
TIL FORSÆTISRÁÐHERRA OG ALÞINGISMANNA
Að vinna rannsóknarskýrslu um það sem gert var eftir hrun.
Rannsókn er nauðsynleg til að auka gagnsæi
og efla traust almennings á stjórnsýslunni og stjórnmálum.
Hagsmunasamtök heimilanna hafa skorað á Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra að standa að gerð rannsóknarskýrslu á þeim ákvörðunum sem voru teknar og þeim aðgerðum sem farið var í gagnvart heimilum landsins eftir hrun.
Hagsmunasamtök heimilanna beina því enn fremur til alþingismanna og annarra sem eiga að láta hagsmuni almennings sig varða að styðja og berjast fyrir rannsókn á því sem gert var eftir hrun.
Í haust verða liðin 10 ár frá fjármálahruni og kominn tími til að heimilin njóti vafans og fái uppreist æru í baráttu sinni við „kerfi“ sem er þeim vægast sagt fjandsamlegt.
Það er ljóst að mjög margar af þeim aðgerðum sem farið var í eftir hrun ollu heimilum landsins stórfelldum skaða, skaða sem aldrei hefur verið viðurkenndur, skaða sem aldrei hefur verið metinn, skaða sem enn sér ekki fyrir endann á og heimilin sitja uppi með.
Hrunið sem ekki mátti persónugera með því að nefna neina þá sem léku aðalhlutverkin var persónugert í „Jónum og Gunnum“ þessa lands. Þeim hefur verið refsað og þau hafa borið byrðarnar á meðan afbrotamennirnir sjálfir hafa aðallega þurft að hafa áhyggjur af því að koma hagnaðinum, sem enn streymir til þeirra í gott skjól.
Það er því brýn þörf á sambærilegri rannsóknarskýrslu og þeirri sem gerð var um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna en nú þarf að fjalla um aðgerðir stjórnvalda í kjölfar hrunsins og afleiðingar þeirra fyrir heimili landsins.
Meðal þess sem þarf að rannsaka er:
Stofnun nýju bankanna og yfirfærslu lánasafna gömlu bankanna til þeirra
Afhendingu stórra eignarhluta í bönkunum til þrotabúa föllnu bankanna
Úrlausnir mála vegna ólöglegra lánaskilmála og framferðis kröfuhafa
Hversu margar fjölskyldur hafa verið sviptar heimilum sínum frá hruninu
Hversu margar fjölskyldur voru hraktar að ósekju út á vonlausan leigumarkað og hver staða húsnæðismála væri núna ef það hefði ekki verið gert
Greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara sem hefur reynst mörgum illa
Ólöglegar vörslusviptingar ökutækja á grundvelli ólöglegra krafna
Skortur á samráði við fulltrúa neytenda og samtök þeirra
Samtökin benda enn fremur á að:
Verðtrygging húsnæðislána er skaðleg en hana er einfalt að afnema
Málsmeðferð við nauðungarsölur og aðfarir brýtur í bága við mannréttindi
Gengistryggð lán hafa ekki enn verið leiðrétt í samræmi við neytendarétt
Úrvinnsla slíkra mála hingað til hefur brotið í bága við stjórnarskrárvarin réttindi neytenda og skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum
Alþingi og dómstólar hafa verið blekkt af málflytjendum fjármálafyrirtækja
Endurskoða þarf þær breytingar sem gerðar voru á vaxtalögum með lögum nr. 151/2010 neytendum í óhag og stöðva aðfarir á hendur heimilum á meðan
Að dómstólar hafa ítrekað fellt dóma út frá hagsmunum fjármálafyrirtækja sem standast ekki skoðun út frá lögum og gildandi rétti.
Allar aðfarir og nauðungasöluferli þarf að sjálfsögðu að stöðva meðan á gerð skýrslunnar stendur – enda komið nóg af slíkum ófögnuði!
Hagsmunasamtök heimilanna bjóða fram aðstoð sína við rannsóknina því innan þeirra vébanda leynist gífurleg þekking á málaflokknum auk ýmissa gagna sem rannsóknaraðilum væri fengur að.
Við væntum skjótra svara um aðgerðir frá forsætisráðherra. Tíminn er að renna út, við höfum beðið í meira en 9 ár þau mega ekki verða 10.