Ungir jafnaðarmenn hafa sent frá sér tilkynningu, þar sem meðferð hælisleitenda er fordæmd. Er nefnt mál ungs hælisleitanda frá Marokkó sem varð fyrir árás í íslensku fangelsi á dögunum og mál hans sagt dæmi um vanrækslu og mannfjandsamlega stefnu stjórnvalda.
Tilkynningin er svohljóðandi:
„Óskað eftir dómsmálaráðherra með samvisku, þarf að geta hafið störf strax
Á dögunum varð ungur hælisleitandi frá Marokkó fyrir hrottalegri árás í íslensku fangelsi. Þar situr hann eftir að hafa ítrekað reynt að flýja mannfjandsamlega meðferð íslenskra yfirvalda og úr landi, en senda á hann aftur til Marokkó. Mál hans er enn eitt dæmi um vanrækslu íslenskra stjórnvalda og mannfjandsamlega stefnu í málefnum hælisleitenda.
Maðurinn sagðist 16 ára gamall þegar hann kom til landsins en tanngreiningar stjórnvalda sögðu hann 18 ára. Á Íslandi eru tanngreiningar notaðar til þess að reyna að sannreyna hvort ungmenni sem segjast vera yngri en 18 ára séu það í raun og veru. Bæði UNICEF og Rauði kross Íslands hafa óskað eftir því að horfið verði frá þessu og heildstætt aldursgreiningarkefi tekið upp í stað þess. Samkvæmt verjanda mannsins hafa íslensk stjórnvöld ítrekað brugðist manninum, nú síðast þegar enginn túlkur var kallaður til á spítalanum eftir þessa fólskulegu árás.
Ungir jafnaðarmenn hafa ítrekað mótmælt því að íslensk stjórnvöld vísi börnum, sem hingað leita skjóls og verndar, aftur út í óvissu og öryggisleysi. Það er siðferðisleg skylda okkar að taka utan um fólk á flótta og veita þeim skjól. Hvort einstaklingur sé 17 eða 18 ára skiptir hér ekki máli. Börn eiga að njóta vafans.
Ábyrgð er fangelsisyfirvalda, ábyrgð er þingsins en mest er þó ábyrgð dómsmálaráðherra sem rekur mannfjandsamlega stefnu gagnvart fólki á flótta og annarra sem hafa talað um að mæta hælisleitendum með „járnhnefa“. Ungir jafnaðarmenn krefjast þess að gripið verði til tafarlausra aðgerða og lýsa enn og aftur yfir vantrausti á Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra.“