Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu-og sveitastjórnarráðherra, segir að engin umræða um framlag ríkissins til borgarlínu hafi farið fram, ranglega hafi verið haldið fram hlutfalli kostnaðar einstakra sveitafélaga. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
„Menn eru komnir svolítið fram úr sér í umræðunni. Samgönguráðuneytið og Vegagerðin tóku í fyrra sæti í undirbúningshópum með sveitarfélögunum. Þetta var gert með tveimur fyrirvörum. Annars vegar þyrfti að skoða samgöngur á stofnbrautum heildstætt í þessum undirbúningi en ekki aðeins borgarlínuna. Hins vegar að engin fjárskuldbinding væri fólgin í þessari aðkomu.
Síðan hefur það gerst að í stjórnarsáttmála [nýrrar ríkisstjórnar] segir að við ætlum að styðja við borgarlínu. Við höfum átt samtal við borgarstjóra um borgarlínuna. Fulltrúar sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu eru auðvitað upphafsmenn þessarar hugmyndar. Allar frekari viðræður eru eftir, þar með talið um fjármögnun,“
segir Sigurður Ingi í Morgunblaðinu.
Aðspurður hvort sveitarfélögin og þá aðallega Reykjavík, geti gengið að tugum milljarða frá ríkinu vegna borgarlínu á næstu árum, svaraði Sigurður Ingi:
„Við eigum þetta samtal eftir við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu. Mín afstaða er að óraunhæft sé að ríkið borgi þetta að öllu leyti. Það er mikilvægt að ríkisvaldið og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu haldi áfram að þróa samtal um samgöngur og almenningssamgöngur. Þar með talið um aðkomu ríkisins að fjármögnun á þessu verkefni,“
Samkvæmt Eyjólfi Árna Rafnssyni, ráðgjafa sveitafélaganna vegna borgarlínu, er fyrirhugað að fjármagna verkefnið með ýmsum hætti, eins og lántöku, aðkomu langtímafjárfesta, eins og lífeyrissjóðanna, sem og fjámögnum sveitafélaganna sjálfra.
Kostnaður er áætlaður um 70 milljarðar króna við borgarlínuna og að framkvæmdir hefjist árið 2020