Fyrrum borgarstjóri Reykjavíkur og bæjarstjóri Reykjanesbæ, Árni Sigfússon, er hættur í pólitík. Þetta segir hann í aðsendri grein í Víkurfréttum. Segist hann hætta í vor, við næstu sveitastjórnarkosningar.
„Þessi ákvörðun er reyndar löngu tekin og löngu tilkynnt en vegna fjölda fyrirspurna enn í dag tel ég mikilvægt að ítreka þetta nú áður en val á lista fyrir næstu bæjarstjórnarkosningar í Reykjanesbæ fer fram,“
segir Árni í greininni.
Árni hefur setið sem óbreyttur bæjarfulltrúi á yfirstandandi kjörtímabili, eftir að Sjálfstæðisflokkurinn missti meirihlutann í sveitastjórnarkosningunum 2014. Hann segir að nú sé kominn tími til að kveðja eftir 30 ár svo aðrir geti tekið upp keflið.
Árni glímdi við þau vandamál sem brotthvarf hersins hafði í för með sér árið 2006, en Reykjanesbær varð þá af miklum tekjum, sem reynt var að bæta upp með uppbyggingu iðnaðarsvæðis í Helguvík og hafnarsvæðis í grennd. Þegar það gekk ekki eftir sem skyldi, sat sveitarfélagið eftir með skuldirnar og var rekstur þess neikvæður á löngu tímabili. Með aukinni skattbyrði til að auka tekjur, missti Sjálfstæðisflokkurinn meirihluta sinn eftir langa setu, frá 2003-2014.