Það getur komið sér vel að vera einn af eigendum eins stærsta fjölmiðils landsins, Morgunblaðsins, þegar maður ákveður að fara í framboð í borgarstjórnarkosningum, eins og Eyþór Arnalds, frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins hlýtur að finna fyrir. Jafnvel þó hann skrifi líka greinar sínar í Fréttablaðið, sem ritstjóri Morgunblaðsins segist ekki vita til að neinn lesi, sem hann sjálfur þekki.
Áslaug María Friðriksdóttir, mótframbjóðandi Eyþórs í leiðtogakjöri Sjálfstæðisflokksins, fær gusu frá skopmyndateiknara Morgunblaðsins í dag, sem vart er í frásögur færandi, ef mótframbjóðandi hennar væri ekki einn stærsti eigandi miðilsins. Og ekki nóg með það, heldur er flennistór framboðsmynd af Eyþóri á sömu síðu, hvar hann býður fram krafta sína.
Í skopmyndinni kristallast meðal annars skoðanamunur Eyþórs og Áslaugar á borgarlínunni, en Eyþór er alfarið á móti henni, meðan Áslaug er henni fylgjandi.
Eflaust er nú um tilviljun að ræða að þetta raðast svona, en án efa gæti Áslaugu og stuðningsmönnum hennar þótt þetta nokkuð súrt í (um)brotið.