Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, er ekki allskostar hrifinn af hugmyndum Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur, óháðs borgarfulltrúa, áður Framsóknarkonu, um bann við snjallsímum barna í skólum. Vísir greinir frá því í morgun að Sveinbjörg hyggist leggja fram tillögu í borgarstjórn, að borgaryfirvöld auðveldi skólastjórnendum að banna snjallsíma í grunnskólum borgarinnar.
Sveinbjörg segir snjallsímanotkun barna vaxandi vandamál og að engar samræmdar reglur séu til um þetta hjá borginni, meðan skólar í Svíþjóð og Frakklandi séu þegar byrjaðir á slíkum bönnum. Hún segir að notkunin ýti undir kvíða og óöryggi fjölda barna.
Björn Leví gerir athugasemdir við fréttina á Facebooksíðu sinni og vandar Sveinbjörgu ekki kveðjurnar:
„Hræðslan við nýtt. Bannfæringar.
Eigum við ekki bara að banna prentvélina og pennann líka? Ritmálið gerir það jú að verkum að við munum ekkert lengur …
Þetta verðskuldar heimsku- og þröngsýnisverðlaun ársins,“
Segir Björn Leví.
Í grein Vísis nefnir Sveinbjörg það sérstaklega að hún sé undir það búin að tillaga hennar muni falla í misfrjóan farveg:
„Það verða örugglega mótbárur og þá líklegast frá þeim sem eru veikastir fyrir og orðnir alvarlega háðir tækjunum.“
Hvort þetta eigi við um Björn Leví, skal ósagt látið.