Árið 2017 var heldur dauflegt í bókmenntunum. Engin teljandi stórmerki eða furður áttu sér stað og harla lítið var um nýbreytni eða frumleika, allavega í þeim íslensku skáldsögum sem ég komst yfir að lesa á árinu….. Í stuttu máli, ekkert stórvægilegt en margt gott að meðaltali. Örlar á makindalegum vana, hiki og íhaldssemi í bókmenntum góðærisins? Erum við bara ánægð með lífið? Ég vil helst fá meira fjör 2018, meira blóð á tennurnar.
Þetta skrifaði bókmenntarýnirinn Steinunn Inga Óttarsdóttir í Kvennablaðið í upphafi árs. Hún reyndar sagði líka að miklu meira fjör hefði verið í ljóðlistinni á árinu og „flugeldasýningar“ í þýðingum.
Var þetta gott ár, slæmt ár eða miðlungs fyrir bókmenntaunnendur? Þorgeir Tryggvason, einn af gagnrýnendum Kiljunnar, skrifaði í lok flóðsins:
Ég er auðvitað ekki búinn að lesa allt „flóðið“ en góðan slatta þó. Einkum íslenska skáldskapinn, minna af þýðingum og non-fictioni. Mín tilfinning er engu að síður sú að þetta sé heldur magurt bókmenntaár. Alla vega engir viðlíka toppar og undanfarin ár, sérstaklega ef horft er til óbundins máls. Enginn Codex, ekkert Allt fer eða Skegg Raspútíns, enginn Svartur víkingur, enginn Stóri skjálfti, engin Öræfi, Kata eða Illska. Hvað þá Jón lærði. Ljóðin koma betur út, en samt er hér hvorki Frelsi né Blóðhófnir. Nokkrir efnilegir frumherjar kveða sér hljóðs, bæði í bundnu og óbundnu, svo þetta fer sennilega allt vel. En það vantar svolítið kolsýruna í þetta flóð.
Í umræðum á Facebook segir bókmenntafræðingurinn Jón Yngvi Jóhannsson:
Þetta var áhugaverð vertíð fannst mér, þótt athyglin hefði gjarnan mátt dreifast meira. Ef ég ætti að velja þeim yfirskrift myndi ég sennilega tala um kvenleg jól. Ekki einungis voru margar af áhugaverðustu skáldsögunum (og ljóðabókunum) eftir konur heldur komu óvenju margar skáldsögur út á síðasta ári þar sem karlar skrifa frá sjónarhorni kvenna: Ármann Jakobsson, Kári Tulinius, Ólafur Jóhann Ólafsson, Jónas Reynir Gunnarsson, Jón Kalman Stefánsson og Bjarni Harðarson gera þetta allir í sínum skáldsögum.
Haukur Ingvarsson, annar Kiljugagnrýnandi, segir að sér hafi fundist þetta skemmtileg bókajól, þar sem margar bækur voru í umræðunni, ekki síst eftir unga höfunda, en engin stal þó senunni. Og Páll Valsson útgefandi leggur áherslu á bækur eftir konurnar:
Þetta voru nefnilega merkileg kvennajól í bókmenntunum!
En Soffía Auður Birgisdóttir nefnir tvær bækur, Elínu ýmislegt eftir Kristínu Eiríksdóttur og Móðurlífið, blönduð tækni eftir Yrsu Þöll Gylfadóttur og segir:
Las þessar tvær skáldsögur um helgina, báðar eftir ungar konur og mjög góðar (hver var að tala um daufleg skáldsagnajól!?)