Elín Oddný Sigurðardóttir gefur kost á sér í 2. sæti forvali Vinstri grænna í Reykjavík til borgarstjórnarkosninga sem fram fer þann 24. febrúar næstkomandi. Þetta kemur fram í tilkynningu.
Elín er 39 ára gömul og er búsett í Háaleitishverfi ásamt eiginmanni sínum Haraldi Vigni Sveinbjörnssyni tónlistarmanni og börnunum þeirra, Heklu Björt og Huga Frey.
Elín er með meistaragráðu í félags- og kynjafræði frá Háskólanum í Lundi, Svíþjóð og hefur lengst af starfað við starfsendurhæfingu, ráðgjöf og kennslu.
Elín hefur lengi verið virk í starfi VG, bæði í Reykjavík og á landsvísu. Hún hefur frá árinu 2015 gegnt embætti ritara Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs.
Undanfarið kjörtímabil hefur Elín gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir borgarstjórnarflokk Vinstri grænna sem og hreyfinguna í heild. Í upphafi kjörtímabils var Elín fulltrúi í menningar- og ferðamálaráði ásamt velferðarráði en frá haustinu 2016 hefur Elín verið varaborgarfulltrúi Vinstri grænna. Hún starfar nú sem formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar og formaður mannréttindaráðs
„Velferðarmálin eru mér hugleikin sem og mannréttindi fólks í víðum skilningi. Kvenfrelsi, félagslegt réttlæti og náttúruvernd í borg eru allt mikilvæg málefni sem eiga erindi við okkur öll. Ég hef nú síðastliðið ár getað einbeitt mér að vinnu í þágu borgarbúa og tel mig eiga erindi til að gera það áfram næstu fjögur árin. Ég mun halda áfram að berjast fyrir því að allir borgarbúar fái lifað með reisn. Það gerum við með því að halda áfram að efla velferðarþjónustuna í víðum skilningi út frá mannréttindum allra. Mikilvæg skref hafa verið stigin til að efla félagslegt húsnæðiskerfi á yfirstandandi kjörtímabili en betur má ef duga skal. Við þurfum að skapa gott umhverfi fyrir börn og barnafjölskyldur. Eflum faglegt starf skóla og tryggjum öllum aðgang að skóla- og frístundastarfi óháð efnahag. Raunveruleg náttúruvernd í borg snýst um að tryggja aðgang að hreinu vatni og hreinu andrúmslofti. Við þurfum að efla almenningssamgöngur og hlúa vel að umhverfinu, bæði á grænum svæðum og í borgarlandinu. Við þurfum að efla raunverulegt íbúalýðræði og brúa bilið milli íbúa borgarinnar og kjörinna fulltrúa.“