Vilhjálmur Bjarnason, frambjóðandi í leiðtogakjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir næstu borgarstjórnarkosningar, skrifar grein í Morgunblaðið í dag, hvar hann fer yfir helstu hugðarefni sín í borgarmálunum. Eru þar húsnæðis- og velferðarmál ofarlega á baugi, en athygli vekur að Vilhjálmur minnist lítið sem ekkert á samgöngumál eða borgarlínu, en hann hefur þó áður lýst yfir efasemdum um hana, líkt og þrír aðrir frambjóðendur í leiðtogakjörinu. Aðeins Áslaug María Friðriksdóttir borgarfulltrúi, hefur lýst yfir að hún styðji hana.
Vilhjálmur segir að á síðustu 20 árum hafi hrannast upp vandamál í borginni:
„Íbúa vantar um 14 þúsund nýjar íbúðir! Lausnin fæst ekki með auknum lánum. Auknar lánveitingar hækka aðeins íbúðaverð. Hvernig á að takast á við 30 þúsund nýja íbúa á höfuðborgarsvæðið á næstu 15 árum? Það hækkar aðeins verð á íbúð-arhúsnæði ef ekki er byggt til að mæta þörfum fyrir þessa fjölgun íbúa,“
segir Vilhjálmur.
Hann segir borgina eiga að vera burðarás þegar kemur að menningu og listum en vill meina að borgin hafi ekki lagt nægilega áherslu á stuðning við Listaháskólann til að leysa húsnæðisvanda hans.
Þá segir Vilhjálmur um velferðarmálin, að fjölgun öryrkja og önnur félagsleg vandamál séu borginni dýr og taka þurfi á rót vandans sem tengist meðal annars brottfalli nemenda í skólakerfinu, án þess að skýra það nánar. Hann vill efla ýmsa þjónustu við fatlaða og nefnir ferðaþjónustu fatlaðra og notendastýrða, persónulega aðstoð sérstaklega (NPA).
Vilhjálmur kýs að Landsspítalinn verði á sínum stað við Hringbraut og vill sjá uppbyggingu hans þar og borgin skuli leysa umferðarvandamálin. Hann segir þó ekki með hvaða hætti borgin eigi að gera það, en samgöngumálin hafa verið einn helsti ásteytingarsteinninn í borgarmálunum um langa hríð.
Þá segir Vilhjálmur borgina stunda fjandskap við íbúa sína þegar kemur að viðburðum í Laugardalnum:
„Borgin stundar mikinn fjandskap við íbúa sína þegar viðburðir eru í Laugardalnum. Þá er brugðist við bílastæðavanda með sektargreiðslum! Er það úrlausn á vanda? Vísir að langtímahugsun er í tilteknum verkefnum en ekki hvað varðar borgina í heild og einstaka málflokka hennar. Lóðaskortur, vanræksla við að þjóna íbúum og atvinnufyrirtækjum, vanræksla við þróun verslunar, t.d. við Laugaveg, og fjandskapur við flugvöll eru örfá dæmi um ráðaleysið. Það skortir stefnufestu og að fylgja eftir málum á skilvirkan hátt.“
Vilhjálmur etur kappi við fjóra aðra framhjóðendur í leiðtogakjörinu, sem fer fram þann 27. janúar.
Það eru Áslaug María Friðriksdóttir borgarfulltrúi, Eyþór Arnalds, athafnamaður og einn af eigendum Morgunblaðsins, Kjartan Magnúson borgarfulltrúi og Viðar Guðjohnsen, leigusali.