Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur sett af stað vinnu í velferðarráðuneytinu til að undirbúa opnun neyslurýma fyrir langt leidda vímuefnaneytendur. Neyslurými sem þessi eru þekkt úrræði erlendis og byggjast á hugmyndafræði skaðaminnkunar.
Alþingi samþykkti í maí árið 2014 ályktun um að stefna í vímuefnamálum skyldi endurskoðuð „á grundvelli lausnamiðaðra og mannúðlegra úrræða, á forsendum heilbrigðiskerfisins og félagslega kerfisins, til aðstoðar og verndar neytendum efnanna og félagslegum réttindum þeirra, aðstandendum þeirra og samfélaginu í heild. Á grundvelli tillögu Alþingis var unnin skýrsla um stefnumótun á þessum forsendum þar sem meðal annars var lagt til að rannsökuð yrði þörf fyrir uppsetningu neyslurýma fyrir fólk sem sprautar sig með vímuefnum.
Rökin fyrir sérstökum neyslurýmum byggjast á því að þeir sem eiga við mestan vímuefnavanda að etja stunda neyslu sína oft við hættulegar og heilsuspillandi aðstæður sem valda enn meiri skaða en ella og stuðla að veikindum og jafnvel dauða. Markmiðið er fyrst og fremst að þeir notendur fíkniefna sem um ræðir geti neytt þeirra við eins mikið öryggi og kostur er við þessar aðstæður.
Ráðherra segir óhjákvæmilegt að horfast í augu við staðreyndir varðandi vanda þess hóps sem um ræðir og bregðast við með raunhæfum aðgerðum. „Þetta snýst ekki um að samþykkja neysluna, heldur að viðurkenna að þessir einstaklingar þurfa aðstoð á forsendum sem þeir geta nýtt sér. Þetta snýst um forvarnir og skaðaminnkandi aðgerðir, líkt og Rauði krossinn hefur sinnt í nokkrum mæli með starfsemi Frú Ragnheiðar. Þar er fyrir hendi mikilvæg þekking á þessum málum og ég vonast því eftir góðu samstarfi við Rauða krossinn varðandi undirbúning að opnun sérstakra neyslurýma“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.