Aðalfundur Pírata í Reykjavík var haldinn á dögunum, þar sem Rúnar Björn Herrera Þorkelsson, garðyrkjufræðingur og formaður NPA miðstöðvarinnar, var kjörinn formaður.
Aðrir stjórnarmenn voru kosnir Þorgerður Ösp Arnþórsdóttir ritari, Björn Þór Jóhannesson gjaldkeri og Unnar Þór Sæmundsson. Elsa Nore hlaut kjör sem aðalmaður í stjórn en lækkaði sig um sæti og er nú fyrsti varamaður. Í staðinn kemur Árni Steingrímur Sigurðsson inn sem fimmti stjórnarmeðlimur.
Rúnar Björn hefur tekið þátt í starfi Pírata síðan flokkurinn náði fyrst fólki á þing árið 2013 og átti hann til að mynda sæti í síðustu stjórn Pírata í Reykjavík auk þess að hafa starfað innan Ungra Pírata.
„Það er ánægjulegt að fá þessa viðurkenningu. Ég hef tekið mikinn þátt í málefnastarfinu, unnið að mótun nokkurra stefna og gerði tvær sjálfur,“
segir Rúnar.
Önnur þeirra snýst um að einstaklingar sem vegna fötlunar sinnar hafi þörf fyrir notendastýrða persónulega aðstoð, NPA, fái þá aðstoð og að þessi aðstoð sé lögfest eins fljótt og hægt er. Enn er bið á því þrátt fyrir yfirlýsingar forsvarsmanna ríkistjórnarflokka bæði fyrir og eftir kosningar.
Rúnar lenti í alvarlegu slysi þegar hann var 21s árs, um áramótin þegar árið 2003 gekk í garð. Hann er með svokallað C5 heilkenni og nánast lamaður frá öxlum og niður. Rúnar var einn af þeim fyrstu sem fengu NPA eftir mikla baráttu sem er hvergi nærri lokið.
Hin stefnan sem Rúnar mótaði innan Pírata snýst um að aðgengi fatlaðra sé tryggt á alla viðburði á vegum Pírata, alltaf.
„Þetta er það sem mér finnst best við Pírata. Allir geta kallað eftir félagsfundi, fjallað þar um sitt áherslumál og fengið að setja það inn í kosningakerfið. Ef félagsmenn samþykkja er stefnan þá orðin að formlegri stefnu Pírata. Við erum ljósárum á undan öðrum flokkum hvað þetta verklag varðar,“
segir Rúnar.