fbpx
Föstudagur 29.nóvember 2024
Eyjan

Guðmundur Andri líkir Davíð Oddssyni við Jónas frá Hriflu

Trausti Salvar Kristjánsson
Fimmtudaginn 18. janúar 2018 11:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar

Það fór framhjá fáum sem fylgjast með fréttum, að Davíð Oddsson varð sjötugur í gær. Afmæli þessa þaulsetnasta forsætisráðherra okkar og líklega umdeildasta stjórnmálamanns Íslands var tilefni greinar Guðmundar Andra Thorssonar, rithöfundar og þingmanns Samfylkingarinnar, á vef Herðubreiðar.

Greinin heitir „Höfundur Hrunsins er sjötugur í dag. Honum skal óskað til hamingju.“ Guðmundur byrjar á því að óska Davíð til hamingju, það sé góður siður að samfagna fólki á stórafmælum. Þá rifjar hann upp vináttu föður síns og Davíðs, sem hann segist meta mikils.

Þá efast Guðmundur að Davíð hafi haft skýra sýn eða stefnu á þróun samfélagsins, hann nálgist hlutina líkt og briddsspilari (sem Davíð er) þar sem leikurinn sé aðalatriðið og keppikeflið sé að „standast sagnir með glæsibrag, fá rúbertur, ná alslemmu. Leikurinn.ׅ“

Guðmundur segist ekki átta sig á Davíð sem stjórnmálamanni, hann hafi komið Íslandi í EES, en verið á móti ESB, með þeim afleiðingum að þjóðin sé „föst í skrýtnu tilskipanalimbói og ekki alveg fullvalda.“ Þá hafi Davíð lýst yfir stríði á Írak til að Bandaríski herinn yrði hér áfram, en svo hafi hann farið og við setið uppi með „allt draslið og geislavirku kakkalakkana og sökina á Íraksstríðinu.“

Þá segir Guðmundur einnig að Davíð sé ekki frjálslyndur:

„Hann er stjórnlyndur reiðarekssinni í efnahagsmálum, trúir á brauðmolakenninguna. Hann er ekki frjálslyndur heldur meira fjárlyndur: aðhylltist frelsi peningamannanna en vildi um leið hafa sjálfur hönd í bagga með því hverjum væri boðið í fjármálapartíið og hverjum ekki. En það tókst auðvitað ekki.“

 

Hann kennir Davíð um veikingu fjármálaeftirlits með „afreglun“ og segir hann skapara óðakapítalisma, sem hafi síðan verið furðulostinn „þegar við fengum yfir okkur óða kapítalista.“ Hann hafi boðið í veislu, en hafi ekki gætt að því þegar allir væru orðnir fullir að engar reglur giltu og enginn að líta eftir neinu.

„Loks þegar hér komst á einhvers konar markaðskerfi eftir áralanga einokun fyrirtækja Framsóknar og Sjálfstæðisflokks, voru hann og aðrir stjórnmálaforingjar eins og maður sem sest upp í tryllitæki sem hann kann kann ekkert á, en veður af stað á fullri ferð og endar úti í skurði. Eða Hruni. Hann er öðrum fremur höfundur Hrunsins.“

 

Þá segir Guðmundur að Davíð hafi virkað vel í hamförum en hafi verið ómögulegur í góðæri, valdið léki hann grátt og hann væri alltof ráðríkur, þó svo honum sjálfum finndist hann aldrei ráða neinu. „Hann er mjög árásargjarn en það er eins og honum finnist árásirnar bara partur af leiknum, ekki alveg alvöru.“

Þá segir Guðmundur í lokin að Davíð hafi viljað líkjast Ólafi Thors á góðum degi, en hafi endað eins og Jónas frá Hriflu á vondum degi:

„Hann vildi líkjast Ólafi Thors á góðum degi en varð meira eins og Jónas frá Hriflu á vondum degi, magnaði sig upp með óvinum sem hann samdi nánast upp úr sér. Endaði samt á því að afhenda þessum óvinum gjaldeyrisforða þjóðarinnar eiginlega upp á grín.

En óskum Davíð nú til hamingju með afmælið. Hann er sjálfsagt löngu hættur að hlusta á annað fólk en viðhlæjendur en samt er full ástæða til að hvetja hann til að hætta nú þessum skringilegu skrifum í Moggann þar sem hann þarf að hafa sífellt hærra til að láta heyrast í sér, en snúa sér að því að skrifa alvöru minningar með alvöru mannlýsingum og sögum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Inga vísar hugmyndum um stjórnarsamstarf við Bjarna og Sigmund Davíð á bug

Inga vísar hugmyndum um stjórnarsamstarf við Bjarna og Sigmund Davíð á bug
Eyjan
Í gær

Björn Leví skrifar: Vókið mikla

Björn Leví skrifar: Vókið mikla