Borgarfulltrúinn Skúli Helgason gefur kost á sér í 3. sæti í flokksvali Samfylkingarinnar fyrir komandi borgarstjórnarkosningar sem fram fer 10. febrúar næstkomandi. Þetta kemur fram í tilkynningu. Skúli hefur verið borgarfulltrúi í eitt kjörtímabil, í meirihlutasamstarfi undir forystu Samfylkingarinnar og stýrir einum viðamesta málaflokknum í borgarmálunum, skóla- og frístundamálum.
Skúli er menntaður stjórnmálafræðingur frá Háskóla Íslands og með MPA-gráðu í opinberri stjórnsýslu frá Minnesotaháskóla. Hann sat á Alþingi kjörtímabilið 2009 til 2013 og var framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar frá 2006 til 2009.
Heiða Björg Hilmisdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar og borgarfulltrúi stefnir á 2. sætið, en borgarfulltrúinn Hjálmar Sveinsson stefnir einnig á 3. sætið.
Borgarfulltrúinn Kristín Soffía Jónsdóttir hefur ekki gert upp hug sinn um hvort hún bjóði sig fram. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri mun því leiða listann.