Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, flutti tillögu þess efnis á borgarstjórnarfundi í gær, að endurskoða þyrfti samning ríkis og borgar um samgöngumál frá árinu 2013, með því augnarmiði að hægt verði að fara í stórframkvæmdir í samgöngumálum í borginni. Samningurinn kveður á um svokallað „framkvæmdarstopp í samgöngumálum Reykjavíkurborgar“ að sögn Kjartans og að ríkið veiti borginni einn milljarð króna á ári til samgöngumála, sem annars hefði runnið til vegamála á landsvísu. Gildir samningurinn til ársins 2022. Var tillögunni vísað til borgarráðs, sem Kjartan telur ávísun á sveftun hennar.
Að sögn Kjartans hafa markmið samningsins ekki náðst:
„Samningurinn er í sjálfu sér viljayfirlýsing um að ríkið sé stikkfrí í samgönguframkvæmdum í Reykjavík í tíu ár og hann var gerður að frumkvæði meirihlutans í Reykjavík. Það verður að fella hann úr gildi til að það sé raunhæft að hefjast aftur handa við samgönguframkvæmdir í Reykjavík og hefja undirbúning að þeim. Ég vil helst ekki túlka skoðun meirihlutans en er hún ekki hluti af stefnu hans að þrengja að akstri fólksbíla í Reykjavík og ýta fólki þannig upp í strætó? Nú er komin rúmlega fimm ára reynsla á samninginn og ljóst er að það hefur ekki tekist.“
Að sögn Dags B. Eggertssonar í Morgunblaðinu í dag, stendur ekki til að svæfa tillögu Kjartans í nefnd:
„Það stendur ekki til að svæfa tillögu borgarfulltrúans þótt henni sé vísað til umfjöllunar í borgarráði heldur felst í því tækifæri til að ná breiðri samstöðu um það stórátak í innviðafjárfestingu sem þarf að verða að veruleika á næstu árum í þágu samgöngumála höfuðborgarsvæðisins.“