Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins og fyrrverandi forsætisráðherra, er sjötugur í dag. Af því tilefni fór hann í viðtal á útvarpsstöð Árvakurs, K100, í morgun. Þar kvaðst hann ekki ætla að setjast í helgan stein, líkt og tveir forverar hans, þeir Styrmir Gunnarsson og Matthías Johannessen gerðu þegar þeir urðu sjötugir.
Davíð var hress og kátur og lék við hvurn sinn fingur. Hann sagðist til dæmis vera B-týpa og því ekki vanur að vera svona snemma á fótum:
„Ég er rallandi frameftir og er að skrifa greinar til eitt, tvö á nóttunni, en það er ekki ástæðan fyrir að þær séu svona skrýtnar,“
sagði Davíð kíminn. Hann bætti svo við:
„Ég hafði þó aga á mér þann tíma sem ég var í forsætisráðuneytinu og mætti tiltölulega snemma þar. Það komu nú oft erlendir menn sem vildu nota daginn vel og maður gat ekki leyft sér hvað sem er. Ég gat ekki sofið bara fjóra tíma á dag eins og frú Thatcher.“
Davíð minntist einnig tímans sem borgarstjóri og lét vel af honum. Hann rifjaði upp skemmtilega sögu af gosbrunni Tjarnarinnar:
„Það var gaman í borginni. Ég var níu ár þar og naut hverrar stundar. Ég hafði meira að segja fjarstýringu sem gat kveikt á gosbrunninum í Tjörninni í borgarstjórabílnum,“
sagði Davíð og minntist þess að þannig hafði hann getað strítt þeim sem hringdu í sig og kvörtuðu yfir því að gosbrunnurinn væri ekki í gangi:
„Ég á fjarstýringuna ennþá, en veit ekki hvort hún virkar.“
Í Morgunblaðinu í dag er þriggja síðna grein um aðkomu Davíðs að bankahruninu, eftir Hannes Hólmstein Gissurason, vin Davíðs og einn helsta hugmyndafræðing Sjálfstæðisflokksins á valdatíma hans. Greinin heitir „Því var bjargað sem bjargað varð-Davíð Oddsson og bankahrunið 2008“ og er fróðleg lesning fyrir alla áhugasama.
Afmælishóf verður haldið Davíð til heiðurs í húsakynnum Árvakurs í Hádegismóum fyrir vini og velunnara afmælisbarnsins, í dag milli 16 og 18.
Eyjan óskar Davíð hjartanlega til hamingju með daginn.