Fyrir liggur frumvarp á Alþingi um lækkun kosningaaldurs í 16 ár, úr 18. Frumvarpið nýtur stuðnings þingmanna úr öllum flokkum, en fyrsti flutningsmaður er Andrés Ingi Jónsson, Vinstri grænum, líkt og Eyjan hefur áður fjallað um. Verði frumvarpið að lögum fyrir sveitastjórnarkosningarnar 26. maí, þýðir það að hátt í 9000 ungmenni fá að nýta atkvæðisrétt sinn í fyrsta skipti.
Kosningaþátttaka í síðustu sveitastjórnarkosningum árið 2014 var í sögulegu lágmarki, eða 66.5 prósent og um 60 prósent í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði. Þar af voru aðeins 47 prósent fólks undir þrítugu sem nýttu kosningarétt sinn á landinu öllu. Í könnun innanríkisráðuneytisins um ástæður lágrar kosningaþátttöku, kom í ljós að 30% fólks sem ekki kaus, sagðist einfaldlega ekki hafa nennt því.
Í samantekt Önnu Guðrúnar Björnsdóttur hjá Sambandi Íslenskra sveitafélaga, um stöðuna á Norðurlöndunum varðandi lækkun kosningaaldurs, kemur ýmislegt forvitnilegt fram. Til dæmis að í Noregi hefði slík lækkun ekki mikil áhrif á staðbundið lýðræði, en tilraunir voru gerðar með lækkun í 16 ár þar árin 2011 og 2015.
Hinsvegar náðu Danir miklum árangri, en þeir notuðust við mikla áróðursherferð árið 2013 fyrir sveitastjórnarkosningar þar. Meðal annars notuðust þeir við sms-skilaboð til áminningar um að kjósa, en slíkt er bannað á Íslandi, nema með sérstöku samþykki viðkomandi.
Átakið í Danmörku skilaði árangri, því kosningaþátttaka hækkaði úr 65,8% árið 2009 í 71,9% árið 2013. Hún dróst lítillega saman árið 2017, eða um eitt prósent, en ekki var gengið eins langt í áróðursherferðum þá.
Hér að neðan má lesa samantektina eins og hún birtist á vef Sambands Íslenskra sveitafélaga:
Hugmyndir um lækkun kosningaaldurs niður í 16 ár hafa verið til umfjöllunar í norrænum grannríkjum, en ekki leitt til almennra breytinga samkvæmt upplýsingum sem Samband íslenskra sveitarfélaga hefur aflað frá öðrum norrænu sveitarfélagasamböndunum.
Í samantekt Önnu Guðrúnar Björnsdóttur, sviðsstjóra þróunar- og alþjóðasviðs, kemur m.a. fram að málið hafi náð lengst í Noregi, þar sem kosningaaldur var í tilraunaskyni lækkaður í 16 ár í sveitarstjórnarkosningum 2011 og 2015. Aðgerðirnar vörðuðu ekki lækkun á kjörgengisaldri.
Norska ríkisstjórnin ákvað síðan að hverfa frá frekari aðgerðum og telur að kosningaréttur eigi að vera óbreyttur 18 ár.
Ekki bárust að svo stöddu frekari upplýsingar frá Svíþjóð en þær, að tillögur um lækkun kosningaaldurs hafi verið settar fram í nokkrum skýrslum en þær ekki náð fram að ganga. Birtar eru upplýsingar sem bárust frá Finnlandi, Danmörku og Noregi hér að neðan.
Frumvarp til laga um lækkun kosningaaldurs í 16 ár
Þingmannafrumvarp þess efnis, að kosningaaldur í sveitarstjórnarkosningum verði lækkaður hér á landi í 16 ár, bíður sem kunnugt er afgreiðslu Alþingis. Í greinargerð þess kemur fram að kosningaaldri var síðast breytt hér á landi árið 1984, þegar aldurinn var lækkaður úr 20 árum í 18 ár og að það hafi verið í takti við þá þróun sem þá hafði átt sér stað í Vestur-Evrópu og víðar.
Einnig kemur fram að frumvarpinu sé ætlað að sporna gegn þeirri þróun, að ungu fólki fer stöðugt fækkandi, sem neytir kosningarréttar síns. Þessi neikvæða þróun hefur verið við lýði allt frá upphafi kosningarrannsókna hér á landi árið 1983. Í síðustu sveitarstjórnarkosningum stóðu málin þannig að kjörsókn nam að meðaltali 66,5%. Á meðal ungs fólks undir þrítugu kusu á hinn bóginn liðlega 47 af hundraði.
Finnland, Danmörk og Noregur
Finnland: Hugmyndir um lækkun kosningaaldurs hafa verið lagðar fram nokkrum sinnum en ekki náð fram að ganga og ekki hefur orðið af tilraunaverkefnum. Vinnuhópur skipaður af finnska dómsmálaráðuneytið skilaði skýrslu 2010 um áhrif lækkunar kosningaaldurs og hvernig hægt yrði að standa að tilraunaverkefni og að hvaða leyti það myndi krefjast breytinga á lögum. Skýrslan er eingöngu til á finnsku en samkvæmt samantekt á sænsku um niðurstöður tók hópurinn ekki afstöðu til sjálfrar spurningarinnar um lækkun kosningaaldurs þar sem það sé pólitísk spurning. Hann tók þó fram að ef slík ákvörðun yrði tekin væri mikilvægt að henni fylgdu sértækar aðgerðir til styðja ungt fólk í að kjósa. Annars væri hætta á að ungt fólk sem fengi kosningarétt myndi ekki nýta sér hann.
Danmörk: Danir náðum einstæðum árangri við að auka kosningaþátttöku almennt og þar með talið meðal ungs fólks í sveitarstjórnarkosningum 2013 með mikilli áróðursherferð og samstilltu átaki ríkis og sveitarfélaga, félagasamtaka og stjórnmálaflokka. Það er athyglisvert í íslensku samhengi að bæði í Danmörku og Noregi hafa sms-skilaboð verið mikið notuð til minna fólk á að kjósa, ekki síst ungt fólk, en hér á landi hefur Póst- og fjarskiptastofnun nýlega komist að þeirri niðurstöðu að óheimilt sé að senda slík skilaboð, nema með sérstöku samþykki viðkomandi.
Átakið í Danmörku fyrir sveitarstjórnarkosningar 2013 skilaði þeim árangri að kosningaþátttaka hækkaði úr 65,8% í kosningum 2009 í 71,9% 2013. Kosningaþátttaka dróst saman um 1% í sveitarstjórnarkosningum í Danmörku í nóvember 2017 en ekki var gengið eins langt í áróðurherferð þá og fyrir kosningarnar 2013.
Danska ungmennaráðið skipaði 2010 nefnd sem í áttu sæti 23 pólitískir fulltrúar í fremstu röð, fulltrúar hagsmunasamtaka og lýðræðissérfræðingar. Nefndin setti fram 28 aðgerðartillögur um hvernig hægt sé að auka þátttöku ungs fólks í lýðræðinu. Hún setti ekki fram afgerandi tillögu um lækkun kosningaaldurs en meirihluti nefndarinnar lagði til að danska þingið myndi fjalla um málið. Frumvarp um lækkun kosningaaldurs niður í 16 ár var lagt fram í danska þinginu 2015-2016 en náði ekki fram að ganga.
Noregur: Tilraunir með 16 ára kosningaaldur í Noregi í sveitarstjórnarkosningum 2011 og 2015 voru gerðar í samvinnu við fræðimenn sem fylgdust með tilraununum. Í skýrslu þeirra eru niðurstöður tilraunanna teknar saman á aðgengilegan hátt bæði á norsku og ensku. Í stuttu máli er niðurstaðan sú að lækkun kosningaaldurs í 16 ár myndi ekki hafa mikil áhrif á staðbundið lýðræði í Noregi. Það sé ekki tilefni til að hafa áhyggjur af lækkun kosningaaldurs en á hinn bóginn sé ekki tilefni til að hafa væntingar um að hún hafi mikil jákvæð lýðræðisáhrif.
Í tillögu sveitarstjórnarráðuneytisins til Stórþingsins um sveitarstjórnarstigið 2018, eru færð rök fyrir því að ekki sé rétt að lækka kosningaaldur almennt og fyrst og fremst byggt á niðurstöðum fræðimannanna. Tilraunirnar hafi sýnt að kosningaþátttaka 16-17 ára ungmenna var meiri en meðal þeirra sem eru 19-25 ára og nærri almennri meðaltalskosningaþátttöku. Líkleg skýring á því sé sú að 16-17 ára ungmenni eru ennþá í framhaldsskóla og í sterkum félagslegum tengslum innan síns sveitarfélags og við foreldra sína.
Tilraunirnar sýndu hins vegar að kjósendur á þessum aldri, sem tóku þátt í sveitarstjórnarkosningum 2011, tóku ekki þátt í meiri mæli en aðrir jafnaldrar í kosningum til Stórþingsins 2013 eða í sveitarstjórnarkosningum 2015. Fræðimennirnir töldu það benda til þess að ekki megi búast við því að þeir sem kjósi 16 og 17 ára komi sér upp kosningahefð og muni frekar taka þátt í kosningum í framtíðinni. Kosningaþátttaka ungs fólks í Noregi lækkar almennt við 19 ára aldur og er skýringin talin sú að í kringum þann aldur er uppbrot í lífi ungs fólks þar sem það fer þá að lifa sjálfstæðari fullorðinslífi. Í kringum 30 ára aldurinn er kosningaþátttakan orðin svipuð meðaltalinu.
Tilraunirnar sýndu að áhrif félagslegrar stöðu á kosningaþátttöku voru þau sömu meðal 16-17 ára og þeirra eldri og ekki sást mikill munur á þeim og eldri kjósendum hvaða varðar fylgi við einstaka stjórnmálaflokka. Fræðimennirnir komust að þeirri niðurstöðu að helstu pólitísku áhrifin af tilraununum hafi verið þau að stjórnmálaflokkar reyndu í meira mæli að höfða til ungs fólks með því að setja ungt fólk í örugg sæti á listum.