Eyþór Arnalds, frambjóðandi í leiðtogakjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir næstkomandi borgarstjórnarkosningar og einn af eigendum Morgunblaðsins, skrifar grein í Morgunblaðið í dag, hvar hann gagnrýnir samgöngustefnu núverandi meirihluta í borginni, undir yfirskriftinni „Reykvíkingar eiga betra skilið.“
Segir hann „markvisst þrengt“ að fjölskyldubílnum með þrengingu og lokun gatna og fækkun bílastæða. Þá segir hann að tækifærið til að setja Geirsgötu í stokk og tryggja þar með hagstæða legu Sundabrautar hafi verið „eyðilagt“.
Greinin er kunnuglegt Sjálfstæðisstef er varðar samgöngumál í Reykjavík og færir Eyþór rök fyrir því að borgarlínan svokallaða muni aðeins gera borgarbúum erfiðara fyrir að ferðast á bílum, þar sem ráðgert sé að loka akreinum á Hringbraut, Miklubraut og Hverfisgötu fyrir almennri umferð, fyrir 75 milljarða, sem er kostnaður upp á 1-2 milljónir á hvert heimili, að sögn Eyþórs.
„Í skýrslu um Borgarlínu er borinn saman umferðarþungi miðað við að allt gangi upp með Borgarlínu við það að gera ekki neitt. Slíkur samanburður verður að teljast ótrúverðugur, enda væri hægt að stórbæta umferðina fyrir minna en 75 milljarða!“
segir Eyþór í grein sinni.
Vill Eyþór að frekar sé litið til þeirra tækniframfara í samgöngum sem framundan eru, í stað þess að fara af stað með „19.aldar hugmynd um línulegar samgöngur“. Furðar Eyþór sig til dæmis á að ekki sé búnaður til að stýra umferðarljósum notaður í meiri mæli:
„Reykjavíkurborg á nú þegar hugbúnað sem getur stillt umferðarljósin en notar hann lítið. Gangbrautarljós á Miklubraut hafa kviknað um miðja nótt og umferð stöðvast þótt enginn sé að ganga yfir götuna.“
Þá segir Eyþór að samningur borgarinnar við ríkið frá árinu 2013 um að veita milljarð árlega til Strætó, hafi ekki gengið upp:
„Reykjavíkurborg gerði 10 ára samning við ríkið árið 2013 þar sem ákveðið var að 1 milljarður á ári sem hefði annars farið í nauð- synlegar framkvæmdir á stofnbrautum í Reykjavík rynnu til Strætó. Markmið samningsins var að auka almenningssamgöngur sem hlutfall af ferðum úr 4% í 6%. Nú, fimm árum síðar er hlutfallið ennþá um 4% og hefur því ekkert vaxið. Fimm milljarðar hafa farið forgörðum í þetta tilraunaverkefni og er ljóst að tilraunin hefur mistekist. Það er því eðlilegt að ný borgarstjórn segi tafarlaust upp þessum samningi og fari fram á að vegaféð fari hér eftir í framkvæmdir á vegum Vegagerðarinnar og það framkvæmdastopp sem hefur verið í gildi í höfuðborginni verði afnumið.“