Samkvæmt tölum frá Þjóðskrá Íslands um breytingar á trú- og lífsskoðunarfélagsaðild, sögðu 3019 manns sig úr kirkjunni árið 2017. Þetta kemur fram í samantekt Kjarnans í dag. Á síðustu þremur mánuðum ársins sögðu 2477 manns sig úr þjóðkirkjunni en málefni biskups voru í brennidepli frétta á þeim tíma.
Seint í október sagði biskup það ekki rétt að nota stolin gögn til að leiða sannleikann í ljós, með vísun í umfjöllun Stundarinnar og Reykjavík Media um viðskipti forsætisráðherra, sem byggðist á stolnum gögnum úr Glitni. Fékk biskup mikla gagnrýni fyrir þau orð.
Þá voru launamál biskups mikið í umræðunni í desember, en kjararáð hækkaði laun biskups hressilega og var hækkunin afturvirk til 1. janúar 2017. Fékk því Agnes M. Sigurðardóttir biskup um 3,3 milljóna eingreiðslu um áramótin. Hafði Agnes sjálf krafist hækkunar á launum og vísaði til þess að biskupsembættið hefði ekki fengið hækkun frá hruni.
Ýmsir bentu á að það skyti skökku við að biskup fengi launahækkun meðan sífellt fækkaði í þjóðkirkjunni, en meðlimum hennar hefur fækkað stöðugt frá árinu 2009. Flestir sögðu sig úr þjóðkirkjunni árið 2010, eða 4.242, í kjölfar ásakana í garð kirkjunnar um þöggunartilburði yfir meintum kynferðisglæpum fyrrverandi biskups, Ólafs Skúlasonar. Næstflestir sögðu sig úr þjóðkirkjunni í fyrra, eða 3019 eins og áður sagði.
Það er því af sem áður var, en í frétt Kjarnans er sagt að árið 1992 hafi 92,2 prósent landsmanna tilheyrt þjóðkirkjunni, en nú eru það 69 prósent. Árið 2000 voru 30.700 manns utan þjóðkirkjunnar, en eru nú rúmlega 100.000.