fbpx
Mánudagur 25.nóvember 2024
Eyjan

Drakk Jónas þá ekki á Hviids?

Egill Helgason
Fimmtudaginn 11. janúar 2018 16:34

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í öðrum þætti af röðinni Kaupmannahöfn, höfuðborg Íslands gengum við Guðjón Friðriksson framhjá Hviids vinstue við Kóngsins Nýjatorg. Það er reyndar misskilningur sem kom einhvers staðar fram að við hefðum framið þá goðgá að fá okkur kaffi á Hviids, það gerðum við ekki, kaffið drukkum við hinum megin við torgið, á veitingahúsi sem heitir Els en kallaðist eitt sinn Grandjean og var einn af uppáhaldsstöðum Jóns Sigurðssonar. Jón var fínn með sig og sótti ekki búllur.

Við gengum framhjá gamla Porta, sögufrægum stað, þar er nú McDonalds. Við hliðina er Hviids og lét Guðjón þess getið að engar heimildir væru fyrir því að Jónas Hallgrímsson hefði setið á Hviids fremur en öðrum kjallarakrám Kaupmannahafnar. Sú saga hefur hins vegar komist á kreik að Hviids hafi verið uppáhaldskrá Jónasar og að þar hafi hann drukkið síðasta kvöldið sem hann lifði, fyrir fallið örlagaríka í stiganum.

Guðmundur Andri Thorsson skrifaði um þetta á Fésbókinni í morgun og nefndi kvæði eftir Snorra Hjartarsson sem máski hefði gefið sögninni um Jónas á Hviid byr undir vængi.

Takk fyrir afbragðs þátt í gærkvöldi. Hann bar þess reyndar merki að þið Guðjón eruð ekki miklir knæpusetumenn, sem er ágætt – nógir eru um fjárans brennivíns- og glötunar-
og síkja-rómantíkina kringum þennan gamla höfuðstað.

Aðeins varðandi Hvít. Mér dettur í hug að þessi hugmynd um Jónas og hans hinsta kvöld á Hvít kunni að vera ættuð úr ljóði eftir Snorra Hjartarson frá 1966, einu fallegasta ljóði hans og einu fallegasta ljóðinu sem ort hefur verið um Jónas. Löngu síðar, upp úr 1980, var pabbi einu sinni sem oftar staddur í Kaupmannahöfn, á einhverjum „skytningi“ og verður reikað inn á Hvít. Þá situr þar einn yfir drykkju Snorri Hjartarson og þegar pabbi sest hjá honum kemur á daginn að skáldið hafði þá fyrr um kvöldið tekið við Bókmenntaverðlaunum Norðurlandaráðs fyrir Hauströkkrið yfir mér, en leiðst í veisluglaumnum og laumast burt, á Hvít. Þarna sátu þeir lengi, tvö íslensk og drykkfelld skáld (eða þrjú?), og áttu eftirminnilega stund, að því er pabbi sagði mér nokkuð oft. Ljóðið hans Snorra er svona:

HVIIIDS VINSTUE

Brenna augun þín brúnu
frá borðinu þarna í köldum
skugga þíns skapadags

Heyri ég hikandi þung
hinstu fótatök þín
hverfa í ysinn að utan

Heyri þau heyri þau óma
í hugar míns djúpi sem fyr
á langferðum lífs míns og brags

Á Hviids vinstue hangir mynd af fjórum Íslendingum sem þar eiga að hafa setið við skál. Myndin er eftir teiknarann og sagnamanninn Örlyg Sigurðsson. Þarna eru Jónas, Jóhann Sigurjónsson, Árni Pálsson og Sverrir Kristjánsson. Einhvern tíma stóð til að fjarlægja myndina, en þá mótmæltu Íslendingar hástöfum. Hún er orðinn partur af söguheimi Kaupmannahafnar-Íslendinga.

En Birni Th. Björnssyni, einum helsta skrásetjara þessarar sögu og sem sjálfur var Hafnar-Íslendingur, var meinilla við þessa mynd og hvatti til þess að henni yrði grandað. Þessi grein eftir Björn birtist í Þjóðviljanum haustið 1978.

Þáttinn má svo sjá hér á vef RÚV.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Þorsteinn Pálsson leiðréttir Össur: Nei, Össur, það er ekki Viðreisn heldur Samfylkingin sem hallar sér til hægri

Þorsteinn Pálsson leiðréttir Össur: Nei, Össur, það er ekki Viðreisn heldur Samfylkingin sem hallar sér til hægri
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Segir fund með Grindvíkingum sláandi – „Það er orðið svo þreytt að segja að hugur manns sé hjá þeim“

Segir fund með Grindvíkingum sláandi – „Það er orðið svo þreytt að segja að hugur manns sé hjá þeim“