Eyþór Arnalds virðist vera einn eftir af þeim sem hafa verið nefndir sem hugsanlegir frambjóðendur í leiðtogaprófkjöri Sjálfstæðisflokksins – þ.e.a.s. af þeim sem eru utan borgarstjórnarflokks Sjálfstæðismanna. Nú er ekki langur tími til stefnu, framboðsfrestur rennur út á morgun klukkan 4. Eyþór hefur sýnt borgarmálunum áhuga, það vantar ekki, en hann er einn af þeim sem er mjög andsnúinn Borgarlínu – sem er á stefnu bæði ríkisstjórnar og Sjálfstæðismanna annars staðar á höfuðborgarsvæðinu.
En svo er hitt að forystusæti og sæti borgarfulltrúa eru auð út um allt hið pólitíska pólitíska svið. Í raun eru það bara Samfylkingin og Vinstri græn sem hafa forystufólk sem nær öruggt er að verði í kjöri í borgarstjórnarkosningunum. Þetta eru auðvitað valdaflokkarnir í borginni og meiri stöðugleiki þar en annars staðar.
Framsóknarflokkurinn hefur misst báða sína borgarfulltrúa á kjörtímabilinu – kannski gæti hann leitað til Frosta Sigurjónssonar sem Sjálfstæðismenn voru skyndilega farnir að hafa áhuga á í gær?
Óvíst er með framboðsmál Bjartrar framtíðar og Viðreisnar – það er jafnvel talað um sameiginlegt framboð og þar heyrast nöfn Pawels Bartozseks og Nichole Leigh Mosty.
Miðflokkurinn vill væntanlega vera með í borginni líka, hann hefur nú innan sinna raða báða borgarfulltrúana sem Framsókn fékk kjörna í síðustu kosningum. Borgarfulltrúi Pírata ætlar að hætta og væntanlega vill Flokkur fólksins stilla upp lista í borginn.
Samkvæmt lögum fjölgar borgarfulltrúum úr 15 í 23 í í þessum kosningum. Það er semsagt nóg af lausum sætum. En eftirspurnin er ekki sérlega mikil. Er kannski ekkert spennandi að sitja í borgarstjórninni í Reykjavík lengur? Hví þá? Lélegt kaup? Lítil tækifæri til frekari frama? Sama fólkið alltaf við völd? Erill og þras?