Stærstu fótboltafélög heims eru markvisst byggð upp sem alþjóðleg stórfyrirtæki. Það er meira að segja sami maðurinn sem var á bak við það að byggja upp fyrirtækið Barcelona og nú er í þeirri lykilstöðu hjá Manchester City. Það er ekki þjálfarinn Guardiola eins og einhver kynni að halda, heldur náungi að nafni Ferran Soriano.
Manchester City er nú í eigu auðmanna í Sameinuðu arabísku furstadæmunum sem eru tilbúnir að dæla inn peningum til að gera liðið hið besta í heimi. Það er nú með 15 stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar.
Pálmi Jónsson fjallar um þetta í pistli sem birtist í Spegli Ríkisútvarpsins. Þar segir orðrétt:
Soriano segir að stóru klúbbarnir séu að breytast úr staðbundnum sirkus í hnattræn afþreyingarfyrirtæki eins og Walt Disney. Örfá félög sem nái að verða sérleyfishafar á heimsvísu nái forskoti á önnur lið og myndi í raun alheims-elítu fótboltans. Soriano segir að fótboltafélög hafi verið öflug vörumerki með litla sem enga veltu. Félög með 500 milljónir aðdáenda hafi verið með 500 milljónir evra í tekjur eða eina evru á mann, sem sé fáránlega lítið. Félögin verði að vera hnattræn og staðbundin í senn.
Lið eins og þessi eru ekki mörg talsins og þau munu alltaf geta keypt bestu leikmennina. Ekki einu sinni félagi eins og Liverpool tekst að halda í sína bestu menn, klúbburinn er einfaldlega of lítill til þess, Philippe Coutinho og Mohamed Salah eru líklega báðir á förum. En hvað með áhorfendurna – er hægt að halda með hattrænum afþreyingarfyrirtækjum?