Hús stjórnarinnar, House of Government , a Saga of the Russian Revolution, á ensku, er stórkostlegur doðrantur eftir rússnesk/bandaríska sagnfræðinginn Yuri Slezkine, magnum opus má hún kallast.
Bókin er meira en 1100 síður og fjallar um stórhýsi sem var reist á bakka Moskvufljóts, andspænis Kreml, til að hýsa flokksbrodda úr röðum bolsévíka. Þarna voru mörg hundruð íbúðir, en líka leikhús, mötuneyti, rými þar sem var hægt að stunda alls kyns afþreyingu eins og tennis og skák. Stór hópur starfsmanna og þjónustufólks fylgdi húsinu.
Úr þessu spinnur Slezkine sögu sovétkommúnismans og hvernig hann breyttist í skelfilega morðvél – og var í raun dauður sem alvöru hugsjón strax í annarri kynslóð iðkenda hans.
Þeir sem fluttu inn í Húsið á bakkanum, eins og það kallast yfirleitt, voru margir úr röðum þeirra sem kölluðust gamlir bolsévíkar. Þetta var fólk sem hafði gengið í flokkinn fyrir byltinguna og stóð allt í einu frammi fyrir því að stjórna heilu ríki. Slezkine rekur uppruna þessa fólks þangað til það flutti inn í bygginguna, margir höfðu verið í útlegð í Síberíu eða starfað með Lenín sjálfum, störf þess eftir að það var komið til valda. Eitt af því sem einkenndi það var óbilandi áhugi á bókmenntum, sérstaklega klassískum bókum, og börnin ólust upp í heimi bóka.
Slezkine heldur því fram að sumpart hafi þetta grafið undan kommúnismanum, klassískar bókmenntir, Tolstoy, Dickens og Balzac, höfðu forgang fram yfir rit Marx og Engels. Ekki þar fyrir að íbúar Hússins á bakkanum voru sanntrúaðir kommúnistar og börn þeirra ólust upp í þeim anda. Fyrstu árin gætti meðal sumra íbúanna andstöðu við Stalín; síðar beygðu þeir sig allir undir ægivald hans, Stalín varð holdgervingur hugsjónarinnar, það sem hann ákvað hverju sinni var sannleikurinn, allir aðrir áttu á hættu á að lenda á skjön við hann – og þá var voðinn vís.
Kjarni bókarinnar er sá að stór hluti íbúanna í Húsinu á bakkanum var drepinn. Fáir hafa verið stórtækari við að drepa kommúnista í sögunni en Stalín. Gömlu bolsévíkarnir og flokkselítan var leidd út að næturþeli, það voru haldin réttarhöld, sum voru í skyndingu, stundum voru búnir til listar með mörg hundruð manns sem skyldi lífláta, önnur voru stórar leiksýningar eins og réttarhöldin yfir Bukharin, Rykov og Radek (hinir tveir síðarnefndu bjuggu í húsinu). Síðan voru þeir leiddir í kjallara og skotnir í hnakkann. Margir þeirra trúðu reyndar fram á banastundina að það væri nauðsynlegt og rétt að fórna þeim fyrir málstaðinn. Byltingin og nýtt samfélag krefðust þess. Sumir höfðu reyndar tekið þátt í að drepa fólk í stórum stíl, en lentu svo í hreinsununum sjálfir
Síðar voru ekkjurnar hirtar upp og þær sendar í Gúlagið. Börnunum var komið fyrir hjá ættingjum eða á munaðarleysingjahælum. Slezkine rekur sögur af einstökum börnum, sum voru afar vel menntuð, þaullesin í heimsbókmenntum, teiknuðu, iðkuðu tónlist og dreymdi stóra drauma. Hann byggir bókina að talsverðu leyti á dagbókum. En þessarar kynslóðar beið algjört skipbrot. Sum ungmennin fórust í stríðinu. Önnur lifðu af, mæðurnar sneru aftur úr Gúlaginu eftir dauða Stalíns og voru eins og framandi lífverur vegna reynslu sinnar. Kynslóðin hafði alist upp í óbilandi trú á framgang kommúnismans, lifði þíðu Krjúsjovs þegar helgimynd Stalíns var rifin niður að hluta til, hið hálfvelgjulega uppgjör – en missti loks alla trú og von á stöðnunartímabili Brésnevs.
Þetta er bók sem er stór í sniðum og með miklu persónugalleríi. Sundum er nánast eins og maður sé að lesa epískt skáldverk – en allt er þetta rótfast í heimildum. Nú í vetrarbyrjun verða liðin 100 ár frá októberbyltingunni, valdaráni hins fanatíska söfnuðar bolsévíka – eins og Slezkine lýsir honum. Varla er hægt að minnast þessara tímamóta með merkilegri hætti en þessari stórbrotnu bók.
Húsið á bakkanum. Þegar ég kom eitt sinn til Moskvu var ég heillaður af þessari byggingu og skoðaði hana í bak og fyrir. Á hinum bakkanum er Kreml og þar átti líka að rísa hin gríðarlega Höll sovétanna með styttu af Lenín upp á, stærsta bygging heims.