Einu sinni var bærinn fullur af fólki sem fór um og bað annað fólk um að skrifa upp á víxla fyrir sig. Það tíðkaðist að fara á fund stjórnmálamanna og áhrifamanna og biðja þá um að skrifa upp á víxlana. Mörgum fannst erfitt að neita þessum greiða. Bankarnir vildu fá sína ábyrgðarmenn og ábekkinga. Flestir borguðu víxlana, en svo voru alltaf einhverjir sem létu víxlana falla á ábyrðarmennina sem þurftu þá að borga skuldina. Þá fóru innheimtubréfin að hrynja inn um lúguna.
Það að skrifa upp á betrun og bót – nokkurs konar aflausn – fyrir brotamenn – að maður tali ekki um verst þokkuðu tegund glæpamanna í samtíma okkar, barnaníðinga, er auðvitað ekki eins og að skrifa upp á víxil. Flestir myndu ekki gera slíkt nema að vel athuguðu máli, maður þyrfti að vita alla málavöxtu og taka sér tíma í að kynna sér þá. Kynferðisglæpamenn fremja einmitt brot sín fyrir luktum dyrum og geta haldið uppi háttsemi sinni lengi án þess að fréttist.
En það er líkt og þeir sem skrifuðu upp á fyrir brotamennina tvo sem nú eru til umræðu hafi gert það í hálfkæringi, líkt og þeir væru að skrifa upp á víxil. Það virkar nokkuð skringilega, en sýnir okkur líka að þær reglur sem hefur verið farið eftir eru gjörsamlega ónýtar. Vottarnir þurfa ekki að vita nema hálfa söguna – í raun þurfa þeir ekki að vita neitt. Lögunum um þetta sem er kallað „uppreist æru“ þarf að breyta helst á morgun.
Svo er að gá að því er að á Íslandi viljum við ekki reka harða refsistefnu þar sem brotamenn geta ekki fengið annað tækifæri. Við erum ekki Bandaríkin þar sem fangelsisdómar eru brjálæðislega langir – og þar sem fyrrverandi fangar eiga enga leið inn í samfélagið aftur. Við það getur myndast hræðilegt hliðar- og undirsamfélag. Það verður þó að segjast eins og er að maður furðar sig stundum á því hversu dómar fyrir ofbeldisglæpi, og þá teljast með nauðganir og barnaníð, eru vægir á Íslandi og hversu fljótt gerningsmennirnir losna út aftur.
Mál barnaníðinganna tveggja hefur tekið óvænta stefnu eftir að birt voru nöfn þeirra sem skrifuðu upp á fyrir þá. Sumir virtust eiga von á því að miklir áhrifamenn hefðu kvittað fyrir Róbert Árna Hreiðarson, en svo er ekki. Loftið lak úr þeirri samsæriskenningu. Allt þetta mál komst upp vegna þess að hann vildi endurheimta lögmannsréttindi sín, annars hefði það líklega legið í þagnargildi. En þetta virðast vera vinir sem eru að gera greiða – kannski í hugsunarleysi, án þess að velta fyrir sér að þetta skipti máli eða hefði afleiðingar, líklega töldu þeir að nöfn þeirra yrðu ekki gerð opinber.
En í máli Hjalta Sigurjóns Haukssonar kemur uppljóstrunin, faðir sjálfs forsætisráðherra skrifar upp á hjá honum. Hann skrifar afsökunarbréf, þetta virðist hafa verið gert í fljótræði og af misskilinni góðmennsku. Af fréttum að dæma virðist Hjalti enn vera haldinn ranghugmyndum. Ábyrgðarmenn hans eru semsagt að votta eitthvað sem þeir vita ekki um.
En stóra spurningin núna er upplýsingagjöfin í málinu. Hví gengu dómsmálaráðuneytið og ráðherra dómsmála svo langt í því að halda upplýsingum um ábyrgðarmennina frá fjölmiðlum. Ein skýringin gæti verið sú að þau hafi ekki talið óhætt að gefa þessar upplýsingar fyrr en úrskurður nefndar um upplýsingamál lægi fyrir. En hvers vegna sagði Sigríður Á. Andersen þá Bjarna Benediktssyni frá strax í júlí? Var henni yfirleitt heimilt að gera það? Hafði þetta áhrif á málsmeðferðina og hvernig málin hafa þróast í sumar og fram á haust? Það er alls ekki gefið að svo sé, en þetta kallar á svör.
Og svo er það pólitísk spurning: Hvers vegna taldi Sigríður ástæðu til að upplýsa í kvöld að hún hefði sagt Bjarna frá þessu?