fbpx
Sunnudagur 24.nóvember 2024
Eyjan

Mikill varnarsigur norsku hægri stjórnarinnar – áhlaup vinstri flokkanna mistókst herfilega

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 12. september 2017 09:41

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Erna Solberg fór fótgangandi um götur Óslóar um miðnótti í gærkvöld umkringd stuðningsfólki og blaðamönnum eftir að hún hafði flutt sigurræðu sína á kosningavöku Hægri flokksins. Hún gekk til norska Stórþingsins. Þar tók hún þátt í leiðtogaumræðum formanna flokkanna sem komust á þing.

Erna Solberg formaður Hægri flokksins og forsætisráðherra Noregs síðastliðin fjögur ár verður áfram við stjórnvölinn. Ríkisstjórnarsamstarf Hægri flokksins við Framfaraflokkinn, með stuðningi Kristilega þjóðarflokksins og Frjálsynda flokksins Vinstri hélt velli í norsku þingkosningunum í gær. Þetta kosningabandalag hlaut 89 þingsæti og hefur þannig fjögur sæti umfram þau 85 sæti sem þarf til að mynda meirihluta á norska Stórþinginu.

Stjórnarandstaðan, það eru vinstri flokkarnir og Miðflokkurinn hlutu alls 80 þingsæti. Þetta eru auk Miðflokksins, – Verkamannaflokkur jafnaðarmanna, Sósíalíski vinstriflokkurinn, Umhverfisflokkur Græningja og kommúnistaflokkurinn Rautt.

Þrátt fyrir að Miðflokknum gengi afar vel í kosningunum, þar sem hann jók fylgi sitt um nálega helming frá fyrri kosningum og fengi 10,3% atkvæða, þá dugar það hvergi til að fella hægri stjórnina. Megin ástæðan er sú að vinstri flokkunum mistókst að svara væntingum. Verkamannaflokkurinn sem hefur verið langstærsti flokkur um áratuga skeið fékk aðeins 27,4% og tapaði 3,4% frá kosningunum 2013. Aðeins einu sinni frá 1924 hefur flokkurinn fengið minna fylgi í þingkosningum. Það var 2001.

Tapari þingkosninganna í gær er Jonas Gahr Störe formaður Verkamannaflokksins. Sá flokkur horfir nú á næst mesta afhroð sitt frá 1924 og það þrátt fyrir að hafa setið fjögur ár í stjórnarandstöðu.

Norski Verkamannaflokkurinn er eftir gærdaginn aðeins rétt stærri en Hægri flokkur Ernu Solberg forsætisráðherra sem hlaut 25,1% og tapaði 1,7% frá síðustu kosningum. Ljóst er að Verkamannaflokksins bíða erfiðir tímar, jafnvel með innra uppgjöri, þar sem flokknum undir forystu Jonasar Gahr Störe klúðraði illilega tækifærum til að sækja að sitjandi hægristjórn.

Hinir vinstri flokkarnir fengu ekki það fylgi sem margir höfðu vonir um, þó að þeir bættu sig.

Sósíalíski vinstri flokkurinn hlaut 6% og jók fylgið um 1,9%. Kommúnistaflokkurinn Rautt fékk 2,4% (aukning um 1,3%) og þingmann í fyrsta sinn í sögu sinni, en var fjarri því að komast í 4% lágmarkið sem hefði veitt honum hlutdeild í uppbótarþingsætum. Þannig fékk þessi flokkur aðeins eitt þingsæti en hefði getað náð um sjö sætum ef hann hefði fengið uppbótarmenn. Svipað gildir um Umverfisflokk Græningja. Hann fékk aðeins 3,2% og einn þingmann en komst ekki í uppbótarþingsætin.

Miðflokkurinn undir forystu bóndans Trygve Slagsvold Vedum er sigurvegari norsku kosninganna í gær, mælt í fylgisaukningu frá síðustu kosningum.

Miðflokkurinn vann hins vegar mjög góðan sigur. Hann fékk 10,3% og jók fylgið um 4,8% frá 2013. Þessi flokkur sem telst systurflokkur Framsóknarflokksins á Íslandi hefur haft mjög ákveðna stefnu til varnar hinum dreifðu byggðum Noregs, auk þess sem hann hafnar ákveðið aðild að Evrópusambandinu. Margir Norðmenn telja að landsbyggðin hafi átt mjög í vök að verjast á síðasta kjörtímabili vegna ýmissa aðgerða hægri stjórnarinnar. Þetta hefur skapað mikla óánægju sem skilaði Miðflokknum ótrúlegu fylgi í gær í sumum byggðum Noregs.

Hægri flokkurinn og Framfaraflokkurinn sem hafa setið í ríkisstjórn síðustu fjögur árin unnu báðir varnarsigra. Hægri flokkurinn missti sem fyrr greindi 1,7% og Framfaraflokkurinn tapaði 1,1%. Það hlýtur að teljast viðunandi og ríkisstjórnin hélt velli. Báðum litlu flokkunum sem styðja hana og verja falli á norska Stórþinginu, það er Kristilega þjóðarflokknum og Frjálslynda flokknum Vinstri, tókst að komast yfir 4% múrinn og fá jöfnunarsæti. Vinstri fékk 4,3% og Kristilegir 4,2%. Hver flokkur um sig hlaut átta þingsæti.

Sigurför kvenna

Þrátt fyrir að hafa setið undir mjög þungum árásum vinstri manna alla kosningabaráttuna þá vann Silvy Listhaug ráðherra innflytjendamála stórsigur í gær. Nálega fjórði hver kjósandi í Mæri og Raumsdalsfylki þaðan sem hún er og var í framboði kaus flokk hennnar Framfaraflokkinn og Listhaug flaug inn á þing.

Sylvi Listhaug ráðherra innflytjendamála í hægri stjórninni hefur verið mjög umdeild sem stjórnmálamaður. Vinstri menn réðust óspart að henni í kosningabaráttunni og gagnrýndu hana harðlega. Listhaug var nú í framboði til þings í heimafylki sínu Mæri og Raumsdal. Þar vann hún stórsigur. Flokkur hennar Framfaraflokkurinn haut þar 22,4 og bætti sig um 2,4%. Listhaug er nú orðin þingmaður í fyrsta sinn á stjórnmálaferlinum. Framfaraflokkurinn er nú hvergi sterkari í Noregi en einmitt í fylki Sylvi.

Sé litið til annars en flokkadrátta þá vekur athygli að konur festa sig mjög í sessi í forystu norskra stjórnmála. Alls náðu 70 konur kjöri í gær sem gerir hlutfall þeirra á Stórþinginu 41,4%. Þær hafa aldrei verið fleiri þar. Síðan er forsætisráðherrann kona og formenn þriggja af fjórum stjórnarflokkum verða væntanlega konur. Það eru Erna Solberg forsætisráðherra, Siv Jensen fjármálaráðherra og formaður Framfaraflokksins og Trine Skei Grande formaður Frjálslynda flokksins Vinstri.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Þorsteinn Pálsson leiðréttir Össur: Nei, Össur, það er ekki Viðreisn heldur Samfylkingin sem hallar sér til hægri

Þorsteinn Pálsson leiðréttir Össur: Nei, Össur, það er ekki Viðreisn heldur Samfylkingin sem hallar sér til hægri
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Segir fund með Grindvíkingum sláandi – „Það er orðið svo þreytt að segja að hugur manns sé hjá þeim“

Segir fund með Grindvíkingum sláandi – „Það er orðið svo þreytt að segja að hugur manns sé hjá þeim“