Gunnar Smári Egilsson sósíalistaforingi og fyrrverandi ritstjóri og útgefandi stingur upp á að breyta Högum í kaupfélag að erlendri fyrirmynd. Hagar, sem reka meðal annars Bónus, Hagkaup, Útilíf og Zöru, eru nú að stærstum hluta í eigu lífeyrissjóða.
Gildi lífeyrissjóður er stærsti einstaki hluthafinn með rúman 13% eignarhlut í Högum, þar á eftir kemur Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins með 10,24%, Lífeyrissjóður verslunarmanna með rúm 7% og Birta lífeyrissjóður með 5,4%. Spyr Gunnar Smári á Fésbók að úr því að launafólk eigi Haga að svo til öllu leyti, hvort það megi ekki breyta verslununum í kaupfélag.
Útfærir Gunnar Smári hugmyndina á eftirfarandi hátt:
Félagsmönnum í lífeyrissjóðunum væri þá sent félagsskírteini og þeir gætu ákvarðað hvort álagning ætti að vera 15% í framtíðinni eða 40%, eins og nú er. Hagnaður umfram það sem þarf til að viðhalda tækjum og tólum væri síðan greiddur út til félagsmanna í hlutfalli við hversu mikið þeir keyptu á árinu,
Bætir hann við að kaupfélög, sem kölluð eru Co-op eða coop, hafi gengið glimrandi vel í Evrópu:
Svona coop-búðir hafa gengið glimrandi vel áratugum saman víða um Evrópu og eru miklum mun geðfelldari fyrirbrigði en matarsala í ágóðaskyni.