Bensínstöð Costco í Kauptúni í Garðabæ er með 15% hlutdeild af allri eldsneytissölu á Íslandi. Greint er frá þessu í Morgunblaðinu í dag. Bensínstöðin er búin að vera opin í rúma tvo mánuði og síðan þá hafa verið langar raðir þangað til að taka bensín.
Magnús Óli Ólafsson forstjóri heildsölunnar Inness segir að vegna samkeppni frá Costco kunni að verða samruni á heildsölumarkaðnum á Íslandi.
Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri heildsölunnar Ísam segir að koma Costco muni hafa afgerandi áhrif á verslun hér á landi. Það verði þó að koma í ljós hvort verslunin breyti innkaupamynstri landsmanna:
Opinberar tölur sýna að salan hefur dregist saman hjá vissum keðjum. Það er ekki tímabært að draga miklar ályktanir af fyrstu vikunum hjá Costco. Það er þó ljóst að fyrirtækið mun hafa afgerandi áhrif. Spurningin er hvernig þau munu birtast. Það verður að koma í ljós hvernig Íslendingar versla í Costco til framtíðar, en vegna fyrirtækisins gæti innkaupamynstur verið að breytast.