Eftir Björn Bjarnason:
Athugun á vegum FAZ.NET eða netútgáfu þýska blaðsins Frankfurter Allgemeine Zeitung leiðir í ljós að frá árinu 2015 hafa Rússar efnt til mun fleiri heræfinga en NATO og aðildarríki þess í Evrópu. Sérfræðingar blaðsins segja þetta áhyggjuefni fyrir Vesturlönd.
Í úttektinni kemur fram að Rússar æfi sig greinilega oftar. Stóræfingar séu aðeins toppurinn á ísjakanum. Æfingar Rússa með þátttöku meira en 1.500 hermönnum séu margfalt fleiri en Vesturlanda. NATO hafi á þessu tímabili stofnað til 38 æfinga með 1.500 mönnum en Rússar til 124 æfinga eða meira en þrisvar sinnum fleiri æfinga. Sé litið til æfinga með 1.500 til 5.000 hermönnum er fjöldi æfinga fjórar á móti einni Rússum í vil.
Þ
essar tölur segja þó ekki alla söguna að mati FAZ því að Rússar æfi oft herafla sinn án þess að nokkuð fréttist af því. Þá sé mjög algengt að kannað sé hvort rússneski herinn sé tilbúinn til átaka. Slíkar athuganir séu sjaldgæfar á Vesturlöndum.
Í ítarlegri grein um niðurstöður úttektarinnar minnir blaðamaðurinn Lorenz Hemicker á að árlegar haustæfingar rússneska hersins séu um miðjan september. Vestrænir sérfræðingar telji að um 100.000 hermenn búi sig um þessar mundir undir Zapad-æfinguna (Zapad: vestur) við austurlandamæri NATO. Af hálfu rússneskra stjórnvalda er hins vegar sagt að aðeins sé um 13.000 hermenn að ræða. Að ekki sé talað um fleiri þátttakendur í æfingunni er engin tilviljun, verði þeir fleiri ber Rússum að bjóða eftirlitsmönnum að fylgjast með henni í samræmi reglur ÖSE, Öryggissamvinnustofnunar Evrópu. Rússar eiga aðild að ÖSE.
Í samtali við FAZ hvetur Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, Rússa til að auka gegnsæi vegna heræfinga. Með því megi draga úr hættu á „misskilningi og stigmögnun“.