Samtök atvinnulífsins segja það óboðlegt fyrir fyrirtæki og heimili í landinu að halda stýrivöxtum óbreyttum. Seðlabanki Íslands tilkynnti í morgun ákvörðun peningastefnunefndar um að stýrivextir verði áfram 4,5%. Fram kom í yfirlýsingu peningastefnunefndar að þrátt fyrir að verðbólga hafi reynst minni en spár bankans gerðu ráð fyrir þá ríki óvissa um verðbólguhorfur.
Sjá einnig: Stýrivextir óbreyttir
Segja Samtök atvinnulífsins það vekja athygli að sérstaklega sé tiltekið í yfirlýsingunni að vísbendingar eru um að breytingar gætu verið framundan í utanríkisviðskiptum og á húsnæðismarkaði:
Ekki verður betur séð en að peningastefnunefndin sé að gefa til kynna að það sé að hægja á hagkerfinu. Ákvörðunin veldur vonbrigðum þar sem gott tækifæri var til staðar til að halda áfram lækkun vaxta, styðja við hagkerfið og draga úr vaxtamun við útlönd. Áhugavert er að rifja upp að á vaxtaákvörðunarfundinum í júní síðastliðnum kusu allir nefndarmenn að lækka vexti og vildu tveir meðlimir lækka vexti meira en raunin varð. Talsverðar sviptingar eru því að eiga sér stað milli vaxtaákvörðunarfunda,
segir í tilkynningu frá SA. Seðlabankinn virðist staðráðinn í því að halda raunvaxtastiginu háu og nú séu meginrök fyrir óbreyttum vöxtum að raunvaxtastigið hafði lækkað. Mikilvægt sé að hafa í huga að verðbólga hafi verið undir markmiði samfleytt í 42 mánuði og Seðlabankinn hafi kerfisbundið spáð meiri verðbólgu en hafi orðið, því sé aðhaldið meira en upphaflega hafi verið lagt upp með:
Ekki verður betur séð en að gengisveiking krónunnar sé meginskýringin að baki óbreyttu vaxtastigi þrátt fyrir að flestar undirliggjandi hagstærðir gefi tilefni til annars. Það er eðlilegt að spurt sé hvað gerist þegar góðærinu lýkur og efnahagsslaki myndast, krónan veikist og verðbólguhorfur versna – mun Seðlabankinn þá lækka vexti verulega? Það má efast um það.
Segja samtökin að með einum hæstu raunvöxtum í heimi og innflæðishöft við lýði sé verið að grafa undan efnahagslegu jafnvægi. Vaxta og haftastefna Seðlabankans dragi úr fjárfestingu og hvata til nýsköpunar. Á sama tíma og lífeyrissjóðir og íslensk fyrirtæki kjósi að fjárfesta erlendis eftir að hafa verið lokuð innan hafta í átta ár þá séu hömlur settar á erlenda fjárfestingu inn í landið
Það er óboðlegt fyrir fyrirtæki og heimili í landinu að halda stýrivöxtum óbreyttum.