fbpx
Mánudagur 25.nóvember 2024
Eyjan

Samansafn af veitingastöðum en ekki matarmarkaður

Egill Helgason
Laugardaginn 19. ágúst 2017 18:28

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mathöllin við Hlemm lítur ágætlega út, það ég náði að sjá í troðningi fyrr í dag. Svæðið virðist vera ágætlega hannað.  Kannski er nokkur bjartsýni að hafa þetta á stað þar sem eru svo fá bílastæði? Svo er náttúrlega er vitlaust að tala um Mathöll – á íslensku myndi það heita Matarhöll.

En þetta er hins vegar ekki matarmarkaðurinn sem margir hafa talað um að mætti koma upp í Reykjavík. Mathöllin – látum okkur hafa það að nota orðið – er samansafn, þyrping, nokkurra veitingahúsa og svo nokkuð af borðum þar sem hægt er að neyta fæðunnar. Sum veitingahúsanna eru þekkt og hafa starfsemi annars staðar.

Þetta er það sem kallast á ensku food court, líkt og við höfum í Kringlunni og Smáralind, matartorg, ekki matarmarkaður, food market. Veitingastaðirnir eru þó ólíkt lystugri en tíðkast í verslunarmiðstöðvunum.

En maður fer semsagt ekki á Hlemm til að kaupa ferskan fisk, kjöt eða grænmeti – heldur er seldur þar tilbúinn matur.

Það verður semsagt enn bið eftir matarmarkaði – og kannski er ekki heldur gundvöllur fyrir slíkt á sama tíma og Costco er að valda usla í matvöruversluninni. Komandi heim eftir sumarlanga dvöl erlendis sér maður beinlínis hvernig vandi matvörubúðanna blasir við þegar maður kemur inn í þær.

Margir staðirnir á Hlemmi virka líka nokkuð dýrir, þetta er ekki lægsti flokkur af veitingastöðum. Þarna er líka bakaríið sem selur afar gott brauðmeti – en á uppsprengdu verði.

Í framhaldi af því spyr maður sig hvað verður um strætófarþegana sem fara um Hlemm. Munu þeir geta fengið athvarf fyrir veðri og vindum í allri þessari fínimennsku? Ég hef ákveðnar efasemdir um að þeir muni upp til hópa sjá sér fært að kaupa veitingar þarna inni.

Veitingastaðirnir í Mathöllinni líta margir prýðilega út, það vantar ekki. Þar verður ábyggilega mikið gúrme. Tveir af uppáhaldsveitingastöðunum mínum eru meira að segja með útibú þarna. Ég kvarta ekki undan því. En það má líka spyrja hvort það sé í verkahring borgaryfirvalda að greiða sérstaklega og með þessum hætti fyrir opnun fleiri veitingastaða í bænum.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Orðið á götunni: Atlaga Stefáns Einars að Þórði Snæ hjálpar Samfylkingu – tryggir jafnvel kjör fyrrum ritstjóra Fréttablaðsins

Orðið á götunni: Atlaga Stefáns Einars að Þórði Snæ hjálpar Samfylkingu – tryggir jafnvel kjör fyrrum ritstjóra Fréttablaðsins
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 dögum

Steinunn Ólína skrifar: Óheiðarleiki er smitsjúkdómur

Steinunn Ólína skrifar: Óheiðarleiki er smitsjúkdómur
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sér íslenskir skattar og yndi stjórnlyndra flokka

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sér íslenskir skattar og yndi stjórnlyndra flokka