Í dag eru liðin fjörutíu ár frá andláti Elvis Presley. Við Jakob Bjarnar vinur minn göntuðumst með það einu sinni að þegar við færum á elliheimili myndum við efna til ritdeilu um Elvis Presley. Ég ætlaði að skrifa greinar í Velvakanda undir nafninu „Einn á Grund“. Átti að halda því fram að Elvis hefði verið asnalegur. Jakob ætlaði að svara og segja að hann hefði verið frábær.
Annars væri ekki erfitt fyrir mig að halda fram þessum málstað – þegar ég var að alast upp var Elvis með því hallærislegasta sem hugsast gat. Eins og ofvaxinn hani á sviði í Las Vegas. Nýkominn úr hernum. Hafði leikið í mörgum leiðinlegum kvikmyndum.
Breska bítlið feykti þessu öllu burt. Og enn finnst mér að Elvis sé fyrst og fremst sætsúpusöngvari. En hann tók tónlist svarta fólksins og gerði hana húsum hæfa fyrir hvíta fólkið Það voru margir svartir tónlistarmenn sem voru miklu betri en Elvis – einn þeirra, Chuck Berry, dó nýskeð í hárri elli. Chuck samdi sín eigin lög, það gerði Elvis ekki.
Þegar Elvis dó var ég í frönskuskóla í Grenoble í Frakklandi. Ég var tiltölulega saklaus unglingur og bókmenntahneigður. Þetta var sami dagur og ég kynntist Matthíasi Viðari. Man að ég sá fréttina á forsíðum blaða þegar ég fór út í búð að kaupa rósavínsflösku til að drekka um kvöldið. Elvis est mort stóð í blöðunum. Ég var penn í drykkjunni þá. Matthías Viðar kom með fulla flösku af Pernod á stúdentagarðinn til mín – gerðist nokkuð drukkinn. Ég var ekki alveg undirbúinn undir það. En Matthías var ógleymanlegur maður og ég sakna hans.