Við fjölskyldan höfum verið að ferðast um Nýja-England undanfarna viku. Þetta er fjarskalega heillandi svæði með mikili náttúrufegurð og ágætu mannlífi. Við komum hingað sökum þessa að Kári Egilsson sem er fimmtán ára piltur fór hingað á fimm vikna sumarnámskeið í hinum frábæra Berklee College of Music í Boston. Það gekk afar vel, skólinn er mjög stór en sérlega vel skipulagður og kennslan góð – hann fékk svo styrk eftir áheyrnarpróf til að koma aftur í skólann að ári.
Við höfum ekið inn í land og dvalið í Berkshires þar sem er mikið skóglendi og litlir afar þokkafullir bæir. Fórum þar á tvenna tónleika með Boston Symphony Orchestra sem leikur þar á sumarsviði í júlí og ágúst. Síðan fórum við út að ströndinni og gistum á Cape Ann, höfða þar sem eru meðal annars bæirnir Gloucester og Rockport. Víðast hvar er mikil menning, bókabúðir, leihús, tónleikasalir, gallerí – og mikil starfsemi á sumrin og fólk sem er albúið að segja manni frá henni. Fólk er almennt mjög vingjarnlegt þegar kemur út í litlu bæina, þetta er eitthvert frjálslyndasta svæði Bandaríkjanna og margir skýra frá því gagngert að þeir hafi ekki kosið Trump.
Hér eru frábærar strendur sem vita út á sjálft Atlantshafið – sjórinn er frískandi, voldugur og fallegur, talsverður munur á flóði og fjöru.
Í gær snæddum við í Gloucester. Það er mikill sjávarútvegsbær, með stórum flota og frystihúsum. Það var frekar vinalegt fannst okkur að lyktin í bænum minnti helst á Vestmannaeyjar. Líklega fær maður hvergi í heiminum betri humar – og alls kyns skelfisk. Maður gæti sjálfsagt leiðst út í að borða humar í hvert mál, því ekki er hann sérlega dýr.
Íslendingar ferðast mikið til Boston, þarna er svæði sem er stutt frá þeirri merku borg – og óhætt að mæla með til sumarfría. Og reyndar er gott að koma hér á öðrum tímum, því Nýja England er frægt fyrir mikla haust- og vetrarfegurð. Sjálf höfum við aðallega haldið okkur í Massachusetts en skroppið aðeins til New Hampshire og Maine – en hér er eru líka ríki eins og hið fjöllótta og skógi vaxna Vermont.
Læt hér fylgja með myndband þar sem Kári spilar tvö lög með skólafélögum í Berklee.