Bandaríkin eru tilbúin að beita hernaðarmætti sínum gegn Norður-Kóreu ef ekki tekst að semja við þá um að hætta framleiðslu kjarnorkuvopna. Þetta sagði Joseph Dunford æðsti hershöfðingi Bandaríkjanna á fundi með Moon Jae-in forseta Suður-Kóreu í morgun. Sagði Dunford að ef samningaviðræður og viðskiptaþvinganir á hendur Norður-Kóreu myndu ekki fæla þá frá því að halda áfram eldflauga- og kjarnorkuvopnatilraunum sínum þá séu Bandaríkin búin að gera áætlun um beitingu hernaðar, en sagði Dunford jafnframt að aðaláherslan sé á að ná friðsamlegri lendingu í deilunni.
Dunford sagði fyrir fundinn að hann væri að kynna sér aðstæður á svæðinu, mun hann á næstu dögum funda með leiðtogum Japans og Kína.
Við erum öll að leitast eftir því að komast úr þessum aðstæðum án þess að fara í stríð,
sagði Dunford eftir fundinn með Moon Jae-in. Fyrir helgi hótaði Norður-Kórea að gera eldflaugaárás á herstöð Bandaríkjamanna í Gúam en Donald Trump Bandaríkjaforseti svaraði því með því að segja að Bandaríkin væru tilbúin í stríð.
Erindrekar Bandaríkjanna hafa að undanförnu reynt að draga úr spennunni með því að ítreka að verið sé að leita friðsamlegra lausna, sagðist James Mattis varnarmálaráðherra Bandaríkjanna vera bjartsýnn á að ná sáttum við Norður-Kóreumenn. Hefur Independent eftir Mike Pompeo yfirmanns leyniþjónustunnar CIA að það sé „ekkert yfirvofandi í dag“ og H.R. McMaster þjóðaröryggisráðgjafa Trumps að Bandaríkin „séu ekki nær stríði í dag en í síðustu viku, en nær stríði í dag en fyrir áratug síðan“.