Donald Trump Bandaríkjaforseti kallar eftir því að Rússar hætti að „grafa undan“ Úkraínu og hætta stuðningi sínum við stjórn Bashar al-Assad Sýrlandsforseta og Íran. Þessi orð lét Trump falla í ræðu sem hann hélt í Varsjá höfuðborg Póllands í dag en hann er nú þar í opinberri heimsókn.
Sagði Trump að Rússar ættu að „ganga í hóp ábyrgra þjóða“. Yfirvöld í Kreml hafa þegar hafnað orðum Bandaríkjaforseta.
Trump er nú á leið til Hamborgar í Þýskalandi á fund G20 þar sem hann mun hitta Vladimír Pútín Rússlandsforseta í fyrsta sinn.
Trump sagði að framtíð vestrænnar siðmenningar væri nú í húfi:
Eins og reynsla Póllands sýnir okkur, þá byggja varnir hins vestræna heims ekki einungis á því sem hægt er að gera heldur á vilja fólksins til að sigra. Grundvallarspurning okkar tíma er hvort hinn vestræni heimur vill lifa af,
sagði Trump. Hvatti hann Rússa til að vinna með sér:
…og gangi til liðs við ábyrgar þjóðir í baráttu okkar gegn óvinum og í baráttunni við að halda uppi siðmenningunni.
BBC hafði eftir Dmitry Peskov talsmanni stjórnvalda í Kreml að Rússar væru ekki að grafa undan einu né neinu:
Við erum bara að bíða eftir að forsetarnir tveir hittist.