Allir þingmenn af múslímskum uppruna á þýska þinginu greiddu atkvæði með frumvarpi sem varð að lögum á þinginu í gær, um löggildingu samkynja hjónabanda. Frumvarpið var samþykkt með 393 atkvæðum gegn 226. Mikla athygli hefur vakið að kanslari Þýskalands, Angela Merkel, greiddi atkvæði gegn frumvarpinu og sagði:
Hjónaband er milli karls og konu.
Múslímskir þingmenn á þýska þinginu eru alls sex og greiddu þeir allir atkvæði með frumvarpinu. Frá þess greindi breska vefritið Independent í gær.
Fjórir af þingmönnunum sex eru í flokki Græningja, einn í flokki Merkels, Kristilegum demókrötum, og einn í Sósíaldemókrataflokknum. Síðastnefndi þingmaðurinn heitir Aydan Özoğuz en hún hefur gagnrýnt Merkel harðlega fyrir tilraunir hennar til að tefja framlagningu frumvarpsins.
Undanfarin ár hefur hávær og átakasöm umræða verið um aðlögun múslímskra innflytjenda að vestrænum samfélögum og meintan skort þeirra á að viðurkenna vestræn grunngildi. Skoðanakönnun sem birt var í Bretlandi í fyrra leiddi í ljós að rúmlega helmingur breskra múslíma teldi að samkynhneigð ætti að vera ólögleg. Þá hafa kannanir leitt í ljós að mun hærra hlutfall íbúa í London er andsnúinn réttindum samkynhneigðra en íbúar Englands í heild og hafa sumir leitt líkur að því að ástæðan er sú að meirihluti íbúa London er með annan bakgrunn en breskan.