Matsfyrirtækið Standard & Poors hefur staðfest hækkun á lánshæfismati ríkissjóðs Íslands í A/A-1 fyrir langtíma- og skammtímaskuldir í erlendum og innlendum gjaldmiðlum. Ástæða hækkunarinnar eru stöðugar horfur í efnahagsmálum og möguleikar á frekari styrkingu opinberra fjármála sem vegi á móti hættunni á ofhitnun hagkerfisins á næstu tveimur árum.
Lánshæfismatið hækkaði í janúar síðastliðnum í A- úr BBB+, var það í fyrsta sinn síðan í október 2008 sem ríkissjóður fær A í lánshæfismat.
Standard & Poors vísar helst til vaxtar í ferðaþjónustu hér á landi sem hafi örvað hagkerfið til muna og gert Seðlabankanum kleift að safna 7,2 milljörðum Bandaríkjadala í gjaldeyrisvaraforða í árslok 2016. Það hafi greitt leiðina til afléttingar gjaldeyrishafta í apríl.
S&P búast við því að lífeyrissjóðirnir nýti sér styrkingu krónunnar og fari að fjárfesta erlendis. Varað er við miklum launahækkunum sem geti sett fjárhagslegan stöðugleika í hættu.