Undanfarin tvö ár voru yfir 200 manns drepin í Svíþjóð. Um það bil 100 manneskjur féllu fyrir morðingja hendi í fyrra og álíka mörg árið 2015. Manndrápum fjölgar í Svíþjóð og um leið fækkar manndrápsmálum sem lögreglunni tekst að upplýsa.
Sænska ríkisútvarpið greindi frá því í frétt í gær að í upp úr 1990 hafi löreglunni tekist að upplýsa yfir 80 prósent af morðunum en síðan hefur dregið úr. Aðeins 67 prósent upplýstust í fyrra. Morðum sem framin eru í uppgjörum glæpahópa hefur einnig fjölgað og af þeim upplýsast einungis einn fimmti hluti, eða um 20 prósent.
Ein af ástæðum þess að svo lítið hlutfall morða glæpahópanna upplýsist er að einstaklingar innan þessara hópa eða fólk sem lifir undir ógn frá þeim tjáir sig ekki við lögregluna. Margir óttast hefndaraðgerðir eða vilja sýna glæpahópunum hollustu sína.
Morðum og morðtilræðum fjölgar stöðugt af völdum slíkra glæpahópa í landinu. Árin 2015 og 2016 voru 56 manneskjur myrtar með skotvopnum í árásum sem lögreglan lítur á sem átök milli glæpahópa.
Mikael Rying afbrotafræðingur hjá sænsku lögreglunni segir að í slíkum tilfellum sé oft um að ræða morðárásir sem tengist innbyrðist. Manneskja sé drepin og þá sé því svarað með hefndarárás. Slík vígaferli geti staðið yfir í langan tíma og það torveldi rannsókn mála.
Sjá frétt: Vargöld í Stokkhólmi: Lögreglan biður um liðsauka
Óhugnanlegar morðfregnir frá Svíþjóð eru nú nánast að verða daglegt brauð. Síðast í gærkvöldi særðust tveir alvarlega og einn minna í skotárás í Malmö-borg. Mennirnir voru skotnir niður þar sem þeir voru staddir innan um fjölda fólks í verslunargötu og er talið að þeir tilheyri einni af glæpaklíkum Svíþjóðar.